Sérfræðiaðstoð vegna rafbílaótta

Reuters fréttastofan greindi frá því fyrir helgi að sérstök vefsíða hafi verið opnuð til að upplýsa mögulega kaupendur rafbíla og tengiltvinnbíla, kosti þeirra og galla, og vinna bug á „drægisótta“ þeirra sem er óttinn við að verða skyndilega stopp úti á vegum af völdum rafmagnsleysis.  Vefsíðan er samvinnuverkefni bílaframleiðenda, rafbílaáhugamanna og framleiðenda íhluta fyrir rafbíla.

Þeir sem einkum standa að þessari vefsíðu eru félag sem heitir The Electric Drive Transportation Association og stórfyrirtækið Southern California Edison en vefsíðuna má sjá hér. Á henni er að finna flest sem máli skiptir um rafbíla, notkun þeirra og notagildi sem og þá styrki og kaupahvata sem bandarískum kaupendum rafbíla standa til boða. Forstjóri Edison fyrirtækisins segir að tilgangur vefsíðunnar sé að upplýsa fólk og eyða ótta þess við rafbílana svo þeir geti nú farið að ná flugi og breiðast út. Góð reynsla fyrstu kaupendanna sé grundvallaratriði þess að svo takist til og góðar upplýsingar verði að vera að gengilegar til að svo geti orðið.

Á Vefsíðunni er að finna upplýsingar um rafhlöður í rafbílum, hvernig þær virka og hvernig virkni þeirra getur breyst eftir ytri aðstæðum og drægi bílsins þannig verið mismunandi eftir t.d. hitafari. Fólk verður auðvitað að hafa vitneskju um allt sem máli skiptir varðandi rafknúnar samgöngur til að geta tekið upplýsta ákvörðun, sagði forstjórinn í viðtali við fréttamenn á bílasýningunni í Los Angeles sem nú stendur yfir.