Sérstakur Kína-Volvo

Hafin er framleiðsla á sérstakri Kínaútgáfu af Volvo S60. Bíllinn hefur gerðarheitið S60L og er hann byggður í nýrri Volvoverksmiðju í Chengdu í Kína. S60L verður trúlega lengri milli hjóla en venjulegur S60. Það verður þó vart staðfest fyrr en við opnun bílasýningarinnar í Guangzhou sem opnuð verður 21. nóvember. Einu myndirnar sem birst hafa af nýja bílnum eru af framendanum, engar af hliðarsvipnum.

Segja má að Kína sé orðið einskonar annað heimaland Volvo eftir að hið kínverska Geely keypti Volvo af Ford árið 2010. En síðan kaupin áttu sér stað hefur Volvo gengið afar vel í Kína og á þessu ári eru söluaukningin 40 prósent miðað við í fyrra. Vinsælustu Volvóarnir í Kína eru S60 og XC60.

En segja má að Kínamarkaðurinn sé undirstaða þess að Volvo nái því markmiði sínu að selja 800 þúsund bíla árlega frá og með 2020. Árið 2012 seldust tæplega 420 þúsund Volvóbílar þannig að líklegt má telja að 2020 markmiðið náist.

Ný Volvo bílaverksmiðja er í byggingu í bænum Daqing til viðbótar við fyrrnefnda verksmiðju í Chengdu. Framleiðsla í henni á að hefjast á næsta ári. Þá er sérstök vélaverksmiðja einnig komin í gang. Hún mun sjá báðum bílaverksmiðjunum fyrir vélum og drifbúnaði í bílana.