Setjum ekki krónu í Saab

http://www.fib.is/myndir/Maud%20olofsson.jpg
Maud Olofsson atvinnumálaráðherra Svíþjóðar.

Maud Olofsson atvinnumálaráðherra Svía sagði á blaðamannafundi í Stokkhólmi fyrir stundu að ríkisstjórnin ætlaði ekki að styrkja General Motors og veita fjárstuðning til rjúfa tengsl Saab við GM móðurfyrirtækið, gera það sjálfstætt, endurskipuleggja það og gera söluhæft. Forstjóri GM sagði í nótt að fengi GM ekki þesssa hjálp sænska ríkisins, yrði Saab einfaldlega lagt niður. Framtíðarhorfur Saab eru því æði dökkar þessa stundina.

Blaðamannafundur sænska atvinnumálaráðherrans hófst kl. rúmlega 10 í morgun og er nýlokið. Á honum endurtók ráðherrann það sem hún hefur áður sagt – að sænska ríkið ætli ekki að gerast bílaframleiðandi. Hún kvaðst vera mjög vonsvikin yfir framkomu ráðamanna GM að þora ekki að segja það hreint út að þeir ætli að fórna Saab, en reyna þess í stað að velta ábyrgðinni yfir á sænska skattgreiðendur. Hún sagði að þó væri ekki útséð með hver framtíð Saab yrði fyrr heldur en að bandaríska ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um málefni GM í Bandaríkjunum.

„En ég stend við það sem ég hef áður sagt að sænska ríkið ætlar ekki að eignast bílaverksmiðjur,“ sagði Maud Olofsson. Hún vitnaði í því sambandi til þess þegar sænska ríkið lagði yfir 100 milljarða sænskra króna í  skipasmíðastöðvar á áttunda áratuginum og tapaði hverri krónu. „Við erum ekki tilbúin í neina ævintýramennsku með fjármuni sænskra skattborgara,“ sagði ráðherrann.