Sex króna hækkun á dísilolíunni

http://www.fib.is/myndir/Bensin_1.jpg

Eins og fram kemur í frétt okkar hér á undan hækkuðu olíufélögin N1 og Olís bensínverðið í fyrradag um fjórar krónur.  Við þá frétt er því að bæta að öll félögin með tölu, hækkuðu dísilolíuna enn meir eða um sex krónur lítrann í fyrradag. Skeljungur / Orkan og Atlantsolía létu sér sex króna dísilhækkunina nægja og héldu óbreyttu bensínverði.

Fyrir stundu dró svo Olís fjögurra króna bensínhækkun sína frá í fyrradag til baka. N1 hafði ekki gert það þegar þetta var ritað og er því á þessu augnabliki með hæsta bensínverðið á Íslandi í dag.

Samkvæmt verðútreikningum FÍB lækkaði kostnaðarverð dísilolíu á heimsmarkaði um rúmar tvær krónur í byrjun vikunnar. Lækkunin varð um svipað leyti og sú gengislækkun íslensku krónunnar varð sem talsmaður N1 réttlætti eldsneytishækkunina í fyrradag með. Þessi sex króna hækkun dísilverðsins hjá öllum íslensku olíufélögunum er því með öllu ástæðulaus og sem blaut tuska í andlit þjóðarinnar í miðjum efnahagsþrengingunum. 
http://www.fib.is/myndir/Eldsnokrid.jpg