Shelby Cobra – sá dýrasti hingað til

http://www.fib.is/myndir/CobraSS_front.jpg
Cobra Super Snake 1966.

Í síðustu viku fór fram bílauppboð í Scottsdale í Bandaríkjunum. Meðal uppboðsgripa var Shelby Cobra „Super-Snake" frá 1966. Leikar fóru þannig að bíllinn var sleginn þekktum bílasafnara að nafni Ron Pratt á 5,5 milljónir dollara eða tæpar 380 milljónir íslenskra króna. Hönnuður og „byggingarmeistari“ bílsins og eigandi, Carroll Shelby, var viðstaddur uppboðið og trúlega hefur það ekki dregið úr ákafa viðstaddra að bjóða í bílinn.

Verðið sem fékkst fyrir bílinn er það hæsta sem nokkru sinni hefur fengist fyrir tryllitæki (Muscle Cars-Vöðvabíla) á uppboði í heiminum. Þessi tiltekni bíll er með grindarnúmerið CSX 3015 og er annar tveggja eins bíla sem byggðir voru árið 1966. Bílarnir tveir voru upphaflega byggðir sem keppnisbílar einvörðungu til nota á lokuðum keppnissvæðum. Vinnuheitið hjá Shelby gamla yfir þá Cobra bíla sem einvörðungu voru ætlaðir til keppni var –Cobra Competition en bílakeppnis- og –áhugamenn nefndu þessa tvo sérstyrktu bíla Super Snake eða ofursnáka. Bíllinn sem seldur var í síðustu viku var sem nýbyggður sendur til Evrópu í kynningar- og söluferð en eftir að hann kom til baka til Bandaríkjanna var honum breytt í svokallaðan hálf-keppnisbíl eða Semi Competition og skráður til notkunar í almennri umferð.http://www.fib.is/myndir/CobraSS_sida.jpg

Uppboðsfyrirtækið Barrett-Jackson fékk bílasérfræðinginn Harley E. Cluxton til að athuga bílinn og meta hann áður en uppboðið fór fram. Hann komst að þeirri  niðurstöðu að bíllinn væri algjörlega upprunalegur og enda þótt hann hefði aldrei verið gerður upp, væri hann í fyrsta flokks ástandi.

Staðreynd er að þrátt fyrir að í bílnum séu tvær túrbínur og aflið um 800 hestöfl hefur ekki verið reynt meir en svo á bílinn allar götur frá árinu 1966 að sama vélin og sömu túrbínurnar eru í honum enn og varla nokkru sinni verið hreyfð skrúfa í bílnum fyrir utan það að þegar honum var breytt í götubíl árið 1967. Sú breyting fólst aðallega í því að í hann var settur í hann ljósabúnaður til að gera hann löglegan til notkunar í almennri umferð.
Aldrei voru byggðir fleiri en tveir  „Super-Snake" bílar. Þessi umræddi bíll með grindarnúmerinu CSX 3015 hefur lengst af staðið inni í bílskúr hjá Carroll gamla Shelby sem nú er 84 ára að aldri. Hann ók bílnum af og til til þess að eins að viðra hann. Hinn systurbíllinn hafði grindarnúmerið CSX 3303. Þann bíl eignaðist leikarinn Bill Cosby nýjan. Hann ók honum víst aðeins einu sinni eða tvisvar en skilaði honum svo aftur til Shelby sem seldi hann náunga að nafni Tony Maxey. Sá endaði ævi sína með því að missa stjórn á bílnum og aka honum fram af kletti og ofan í Kyrrahafið. Maxey fórst en bíllinn var endurheimtur úr klóm Ægis konungs og gerður upp og er nú í Bretlandi. Það eintak þykir ekki hafa sama söfnunargildi vegna breytinga sem gerðar voru á honum eftir sjóbaðið. 
http://www.fib.is/myndir/CobraSS_motor.jpg
Alls voru byggðir um það bil eitt þúsund Cobra bílar um miðbik sjöunda áratugarins. Fyrstu bílarnir voru með undirvagni frá breska sportbílaframleiðandanum og nefndust AC Cobra. Eftir að Shelby hafði endurbætt undirvagninn og sérstaklega þó fjöðrunina nefndust bílarnir 427 Cobra. Allir upprunalegu bílarnir seljast á háu verði nú, en miklu fleiri eftirlíkingar af Cobrabílum eru til vegna þess að Cobra er vinsælasti heimasmíðabíll sögunnar (Kit-bíll) og fjöldi fyrirtækja um allan heim byggir undirvagna og yfirbyggingar sem fólk kaupir í stórum stíl og púslar saman í bílskúrnum heima. Ein slík Cobra er til á Íslandi.
http://www.fib.is/myndir/Carroll_Shelby.jpg

 

 

 

             Carroll Shelby, hönnuður Cobra sportbílanna. Hann er nú 84 ára.