Shell veðjar á lífræna dísilolíu

The image “http://www.fib.is/myndir/Sundiesel.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Olíufyrirtækið Shell í Hollandi hyggst í samstarfi við þýskt efnaverkfræðifyrirtæki hefja framleiðslu á lífrænni dísilolíu í stórum stíl. Olían verður seld undir vörumerkinu Sun-Diesel sem útleggja mætti sem sólarolía. Olían er unnin úr lífmassa sem fenginn er úr plöntum og ýmiskonar plöntuúrgangi, þar á meðal sagi og timburúrgangi. Tilraunaframleiðsla er þegar í gangi í Freiburg í Þýskalandi.
Sólar-dísilolían er talin vera ekki síðra bílaeldsneyti heldur en hefðbundin dísilolía sem unnin er úr jarðolíu. Hún hefur þó þann kost fram yfir jarð-dísilolíuna að vera alveg laus við brennistein og ýmis mengunarefni sem talin eru vera skaðleg heilsu manna og dýra.
Samstarfsfyrirtæki Shell í sólarolíuverkefninu heitir Choren og hafa fyrirtækin í sameiningu og í samvinnu við DaimlerChrysler og Volkswagen unnið að því að þróa olíuna að undanförnu, sem og framleiðsluaðferðir. Nú þegar eru á teikniborðinu nokkrar stórar framleiðslustöðvar og verður sú fyrsta reist í Freiburg fljótlega. Sú mun framleiða 200 þúsund tonn af sólarolíunni á ári. Fjárfestingin í þessu verkefni er um milljarður Evra og framleiðsla á vegum þess er áætluð í kring um milljón tonn fyrir árið 2012.