Síðasta norska rafbílaverksmiðjan á hausinn

Norska verksmiðjan Pure Mobility sem framleiðir tveggja manna rafbílinn Buddy var lýst gjaldþrota sl. föstudag. Þar með er framleiðsla á rafbílum úr sögunni í Noregi því að framleiðsla á rafbílnum Think var flutt frá Noregi til Finnlands fyrir þremur árum. Stjórnarformaður hins gjaldþrota Pure Mobility  segir vonlaust að ætla sér að framleiða rafbíla í Noregi vegna þess hve verðlag þar sé hátt og aðföng  og sérstaklega þó vinnuafl sé dýrt.

Framleiðsla á rafbílnum Buddy hefur verið hálfgerð sorgarsaga um rúma tvo áratugi. Bíllinn var fyrst framleiddur í Danmörku undir nafninu Kewet El-Jet og voru meira að segja tvö eintök flutt til Íslands haustið 1992. Ritari þessara orða reynsluók þá bílnum og tók viðtal við framleiðanda bílsins; Knud Erik Vestergaard í dagblaðið Tímann.

Nokkru síðar fór framleiðslan í Danmörku í þrot og í kjölfarið var reynt að endurvekja framleiðsluna í Þýskalandi og aftur í Noregi, en allt fór á svipaða leið. Hvað varð um bílana tvo sem til Íslands komu er okkur ókunnugt um.

 Eirik Engebretsen fyrrum stjórnarformaður Pure Mobility segir í viðtali við Aftenposten að rafbílaframleiðsla í Noregi sé ekki raunhæf. Hún verði að fara fram í landi þar sem laun og verðlag er lægra. Hann segir að í sjálfu sér geri stjórnvöld ýmislegt gott til að ýta undir það að fólk kaupi rafbíla. Þeir hafi líka selst ágætlega en framleiðslukostnaðurinn og viðvarandi lausafjárskortur hafi að lokum drepið framleiðsluna.  Fjárfestar hafi verið mjög tregir til að setja fé í framleiðsluna.

Í Noregi eru nú yfir 3.300 rafbílar á skrá og í umferð og ríkisvalið gefur árlega um milljarð norskra króna með rafbílum í formi eftirgjafar á aðflutnings- og skráningargjöldum, bifreiðagjöldum, vegatollum og með uppsetningu og rekstri helðslustöðva. Þá þurfa rafbílaeigendur ekki að greiða bílastæðagjöld á stæðum í eigu hins opinberra og ferjuflutningar fyrir þá eru ókeypis.