Síðustu Saab-arnir boðnir upp

Áhugafólki um einstaka Saab bíla gefst tækifæri 15. og 16. des. að eignast einn eða fleiri slíka þegar 68 síðustu bílarnir í þrotabúi Saab verða boðnir upp. Lang flestir bílanna eru að segja má glænýir og ónotaðir.

Efalaust má telja að „herragarðsútgáfa“ eða langbakurinn Saab 9-5 verði þegar tímar líða talinn einn merkast bíllinn frá Saab. Einungis náðist að byggja samtals 33 þessara nýju bíla. 18 þeirra verða boðnir upp og einn þeirra er allra síðasti bíllinn sem byggður var í verksmiðjunni í Trollhattan. Hann var meira að segja byggður eftir að Saab hafði verið lýst gjaldþrota. Ennfremur verða seld 29 eintök af 9-5- stallbaksbílum. Loks skal nefnt að meðal 9-5 herragarðsvagnanna er eitt eintak sérstakrar sportútgáfu – hið eina sem nokkru sinni var byggt. Gerðarviðurkenningarvottorð (COC vottorð) er ekki til fyrir suma þessara bíla, meðal þeirra er fyrrnefnd sportútgáfa sem aldrei náðist að gerðarviðurkenna. Bílar án COC vottorðs er ekki hægt að skrá til notkunar í Evrópu. Þessir bílar eru því sérstaklega hugsaðir fyrir safnara og söfn.  

Aðrir bílar sem boðnir verða upp 15.-16. des. eru allir gerðarviðurkenndir í Evrópu og því verður hægt að skrá þá til notkunar hvar sem er í álfunni án fyrirstöðu. Þeirra á meðal eru jepplingurinn 9-4X, sem náðist að byggja í 700 eintökum í Mexíkó, og hátíðargerðin Saab 9-3 Cabriolet Independence Edition. Þetta er bíllinn sem byggja átti í 366 eintökum til að fagna skilnaðinum við General Motors. Aðeins náðist að byggja 38 þeirra. Tvö eintök þess „skilnaðarbíls“ verða boðin upp og 10 eintök af jepplingnum frá Mexíkó. Einn jepplinganna er með evrópuraðnúmerið 1. Að lokum skal nefna Saab 9-5 Aero V6 300 ha. sjálfskipta forstjórabílinn sem fyrrverandi forstjóri og eigandi Saab notaði.

Uppboðsfyrirtæki sem heitir KVD býður bílana upp og hægt er að nálgast nánari upplýsingar um þá á heimasíðu þess. Þar er tekið fram að bjóðendur skuli kynna sér bílana rækilega því að þeir verði seldir algerlega án allrar verksmiðjuábyrgðar og að í suma þeirra kunni að verða erfitt að útvega varahluti.