Sigur að leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanns hafi verið lækkað

Eins og fram hefur komið voru ný umferðarlög samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi í vikunni. Meðal breytinga er lækkun leyfilegs vínandamagns í blóði ökumanna, sem fer úr 0,5 prómílum í 0,2 prómíl. Þá er einnig heimild í lögum til að banna umferð á tilteknu svæði, fari mengun yfir heilsuverndarmörk.

Með nýjum umferðalögum hefur sú breyting orðið að leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanns er nú 0,2 prómíl en áður voru þau 0,5. Samskiptastjóri Samgöngustofu segir að nú sér það skýrt kveðið á um í lögum að áfengi og stjórn ökutækja fari ekki undir nokkrum kringumstæðum saman.

Í fréttatíma á Stöð 2 í gærkvöldi var fjallað um nýju samþykktina og kom fram í máli Björns Kristjánssonar, starfsmanns Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB,  að það sé mikill sigur að leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanns hafi verið lækkað. Hann hefði þó viljað sjá mörkin lækkuð alveg niður í núll, enda sé tvöfalt meiri hætta á mistökum þegar leyfilegt áfengismagn í blóði er 0,2 prómíl.

„Nú erum við komin á sama stað og Noregur og Svíþjóð til dæmis. Það urðu umtalsverðar breytingar hjá þeim og fækkun á banaslysum. Áfengi er annar orsakavaldur banaslysa á Íslandi í dag og það er til mikils að vinna að draga úr áfengisneyslu,“ sagði Björn Kristjánsson, starfsmaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Í nýjum umferðalögum var einnig tekið á aukinni svifryksmengun. Þar kemur fram að sveitarfélögum og vegagerðinni sé heimilt að takmarka eða banna umferð um stundarsakir á tilteknum vegi eða svæði þegar mengun fer yfir heilsuverndarmörk eða þegar hætta er talin á að slíkt gerist.

Umfjöllunina á Stöð 2 má nálgast hér en þaðr eru viðtöl við Björn Kristjánsson, starfsmann FÍB, og Þórhildi Elínardóttur samskiptastjóra Samgöngustofu.