Sjálfskiptingin nær yfirhöndinni á árinu

http://www.fib.is/myndir/Sjalfskipting.jpg


Þótt sjálfskiptikassar séu bæði þyngri og dýrari en hefðbundnir gamaldags gírkasar þá verða sjálfskiptingar stöðugt vinsælli.  Á þessu ári munu fleiri bílar í heiminum seljast með sjálfskiptingu en með hefðbundnum handskiptum gírkassa. Þessu er spáð í markaðsrannsókn sem sagt er frá á just-auto.com. Hlutfallslega flestir sjálfskiptir bílar eru í Bandaríkjunum, Japan og S. Kóreu

Evrópubúar aðrir en Íslendingar hafa verið frekar seinir að tileinka sér sjálfskiptinguna í stað hefðbundins gírkassa enda hefur hún lengstum verið dýrari en handskiptingin en það hefur verið að breytast seinni árin.

Gríðarleg útþensla bæði bílamarkaðar og bílaframleiðslu í Asíu hefur hraðað mjög útbreiðslu sjálfskiptingarinnar. Í Asíu velja bílakaupendur miklu frekar sjálfskiptingu en handskiptingu bæði vegna þess að þar er almenn bílaeign fremur ný af nálinni og þar finnst engin sérstök hefði fyrir því að aka handskiptum bílum umfram sjálfskipta eins og í Evrópu. Þá er stærsti markaður asískra bílaframleiðenda, ekki síst s.kóreskra framleiðenda í Bandaríkjunum og þar kjósa langflestir kaupendur bíla að hafa þá sjálfskipta en ekki handskipta. Vegna þessa áhersluleysis á handskiptinguna þar hefur verðmunur á sjálfskiptum bílum og handskiptum dregist mjög saman.

Samkvæmt fyrrnefndri markaðsrannsókn þá mun ört vaxandi eftirspurn eftir sjálfskiptingum hafa það í för með sér að reisa verði minnst 10 nýjar stórar sjálfskiptingaverksmiðjur fyrir árið árið 2014. Þrír af stærstu framleiðendum sjálfskiptinga í heiminum; General Motors, Honda og Aisin AW (Toyota m.a.) og fleiri, hafa áttað sig á þessu og eru þegar byrjaðir að undirbúa nýjar verksmiðjur m.a. í Kína.

En auk hefðbundinna sjálfskiptinga sem í raun byggja á sömu grundvallarlögmálum og gamla skiptingin í Ford T eru fleiri gerðir sem menn veðja líka á. Meðal þeirra eru stiglausa CVT skiptingin sem þekkist í t.d. Nissan Micra og DSG gírkassi sem er einskonar blendingur hefðbundins gírkassa og sjálfskiptingar. Reyndar er því spáð að þessar tvær síðastnefndu gerðir eigi eftir að styrkja sig verulega í sessi hlutfallslega umfram hefðbundnar sjálfskiptingar.