Sjö bílar keppa um bíl ársins 2020
Val á bíl ársins 2020 verður kunngert á bílasýningunni í svissnesku borginni Genf í mars nk. Það er 60 manna nefnd bílablaðamanna frá 23 löndum í Evrópu sem völdu í fyrstu 30 bíla og að lokum komust sjö bílar í úrslit.
Bílarnir sem hér um ræðir eru BMW 1, Ford Puma, Peugeot 208, Porsche Taycan, Renault Clio, Tesla Model 3 og Toyota Corolla..
Á síðasta ári var það Jaguar I-pace sem hlaut þessa eftirsóttu nafnbót en í október sl. var sami bíll útnefndur bíll ársins á Íslandi. Til að vera hlutgengur í valinu þarf bíllinn að hafa verið kominn á götuna í minnst fimm Evrópulöndum fyrir komandi áramót.
Talandi um viðurkenningar má geta þess að þýska bílablaðið Auto Bild sagði frá því í vikunni að rafbíllinn Tesla Model 3 hefði hlotið Gullna stýrið þar í landi. Bíllinn hlaut yfirburðarkosningu en auk þess fékk hann bestu kosninguna í flokki meðalstórra- og stærri bíla.