Sjötugustu VW-jólin í Wolfsburg

Breski majórinn Ivan Hirst, fósturfaðir Fólksvagnsins.
Breski majórinn Ivan Hirst, fósturfaðir Fólksvagnsins.

Á nýliðnum öðrum degi jóla voru 70 ár síðan fjöldaframleiðsla hófst á Volkswagen bjöllunni. Sagan segir að gert hafi verið hlé í verksmiðjunni í Wolfsburg meðan verksmiðjustarfsmenn borðuðu jólamat og gengu síðan í kring um jólatréð og sungu jólalög. Að því loknu var verksmiðjan gangsett á ný og skömmu síðar rann fyrsta fjöldaframleiddda bjallan af færibandinu. Hún markaði upphaf Volkswagenævintýrisins mikla sem enn stendur þótt vissulega gefi á bátinn þessar vikurnar.

En saga hins merka bíls bjöllunnar er þó lengri og við skulum byrja að rekja hana frá 26. maí 1938 þegar Adolf Hitler kanslari Þýskalands lagði hornstein að Kraft durch Freude-bílaverksmiðjunni (KdF- Gleðiaflið) við bæinn Fallersleben að 70 þúsund manns viðstöddum. Þarna skyldi framleiða árlega a.m.k. 150 þúsund eintök af ódýrum en traustum bíl fyrir fólkið – fólksvagn. En ári síðar hófst heimsstyrjöldin og KDF verksmiðjan taldist þurfa að fást við ýmislegt annað þarfara en það að framleiða bíla fyrir almenning. Eftir því sem stríðinu vatt fram, urðu loftárásir breskra og bandarískra sprengjuflugvéla á verksmiðjuna sífellt tíðari. Allt þetta varð til þess að hin fyrirhugaða 150 þúsund bíla ársframleiðsla skrapp saman og frá upphafinu vorið 1938 til stríðsloka varð heildarframleiðsla Fólksvagnsins einungis 630 bílar. Það var allt og sumt.

Það var verkfræðingurinn Ferdinand Porsche sem upphaflega hannaði KDF bílinn eða Fólksvagninn. Hönnun hans byggðist á hinum tékkneska Tatra. Burðargrind Tatrabílsins var eins og í Fólksvagninum stórt rör. Fremst á því voru rafsoðnir tveir stálarmar ekki ósvipað og á risastórum tveggja tanna steikargaffli. Við þessar tennur var vélin og gírkassinn fest og neðanundir þá hjóla-, fjaðra-, og stýrisbúnaðurinn. Drifskaftið gekk síðan aftur úr gírkassanum í gegnum rörið og tengdist við drifhúsið sem skrúfað var aftan á rörið. Þetta var í stuttu máli burðarvirkið og ofan á það kom svo yfirbyggingin. Það sem Ferdinant Porsche gerði öðruvísi í sinni hönnun var að snúa þessu við – setja vélina og gírkassann aftast. Nokkrar frumgerðir voru síðan byggðar og eftir því sem við vitum best eru þær allar glataðar. Þær „frumgerðir“ sem sjá má í Volkswagensafninu í Autostadt í Wolfsburg eru síðari tíma endurgerðir.

Kübelwagen í stað Fólksvagns

Þótt einungis 630 Fólksvagnar væru byggðir á valdatíma Hitlers og nasistanna þá má segja að hönnun Porsche hafi nýst vel því að ofan á undirvagnana og loftkældu boxervélarnar frá Porsche gamla voru settar tvennskonar aðrar yfirbyggingar sem nýttust herjum nasistanna ágætlega og ekki ósvipað og Jeppinn reyndist herjum Bandamanna. Önnur gerðin nefndist Kübelwagen og af honum voru byggð 50.788 eintök. Hin var með vatnsheldri yfirbyggingu og skrúfu að aftanverðu og nýttist til ferða um lög jafnt sem láð. Sú gerð nefndist Schwimmwagen og var byggð í 14.276 eintökum meðan á styrjöldinni stóð.

Sá sem stjórnaði framleiðslu þessara bíla og starfsemi verksmiðjunnar var reyndar tengdasonur Ferdinants Porsche. Sá hét Anton Piëch og var faðir Ferdinands Piëch sem var stjórnarformaður VW samsteypunnar fyrir ekki svo löngu. Vinnuaflið í sjálfri framleiðslunni, um 20 þúsund manns í KDF verksmiðjunni var mestallt sótt í nærliggjandi fanga- og útrýmingarbúðir nasista. Framleiðslan í verksmiðjunni í Fallersleben stöðvaðist svo eftir loftárásir Bandamanna í ágúst 1944. Vinnuaflið var þá flutt í nærliggjandi námur og neðanjarðarbyrgi og látið viðhalda og setja saman Junkers 88 flugvélar og V1 flugskeyti. Verksmiðjuþrælarnir voru svo loks frelsaður af Bandaríkjahermönnum í apríl 1945 en Anton Piëch var þá brotthlaupinn heim til Austurríkis með 190 milljón ríkismörk í ferðatösku sinni. Þá peninga tókst honum svo að nýta til þess að fjármagna nýtt eignarhaldsfélag; Porsche KG, sem í dag er einn af stærstu eigendum samsteypunnar VW AG.

Breski þátturinn

Í stríðslok var Þýskalandi skipt upp í hernámssvæði undir stjórn herja Bandamanna og lenti Fallersleben sem nú nefndist Wolfsburg innan breska svæðisins undir stjórn hins 29 ára gamla breska majórs, Ivan Hirst. Forgangsverkefni hans var að koma samfélagsinnviðum í lag sem skjótast, svo sem atvinnumálum, samgöngum, menntamálum og heilbrigðisþjónustu. KDF verksmiðjan var þar með á hans könnu og um sex þúsund vinnufærar manneskjur tiltækar til starfa þar. Þetta vinnuafl átti í fyrstunni að halda við farartækjum hernámsliðanna en við nánari skoðun á verksmiðjunni sýndi sig að hún var lítið skemmt og tiltölulega hæg heimatökin með að setja þá  bílaframleiðslu af stað sem upphaflega var ætlunin. Hernámsliðin sárvantaði bíla til að koma samfélaginu aftur í gang og þegar í ljós var komið að gamla KDF verksmiðjan var í allgóðu lagi og mikið til af vélum og öðrum hlutum til að endurræsa framleiðsluna, fékk Hirst fljótlega staðfestar beiðnir um að framleiða sem allra skjótast 20 þúsund bíla. Bílana átti fyrst og fremst fá læknum, hjúkrunarfólki og hjálparliðum Rauða krossins í hendur, sem og póstþjónustunni.

Nokkrir af þeim 55 bílum sem runnu af færibandinu um jólin 1945 voru sendir til Bretlands svo að fremstu bílasérfræðingar landsins gætu grandskoðað þá og skorið úr um það hvort vit væri í því yfirleitt að framleiða þennan sérstæða bíl. Út úr þeirri vinnu kom skýrslan Final Report No. 998 með undirtitlinum Investigation into the Design and Performance of the Volkswagen or German People’s Car. (Rannsókn á hönnun og afköstum Fólksvagnsins eða þýska alþýðuvagninum).

Skýrsla þessi byggðist á skýrslum fimm bílasérfræðinga frá Ford, Humber, Singer, Solex og AC. Hin sameiginlega niðurstaða þeirra var þessi: „Ekki verður séð að hönnunin sé á nokkurn hátt frábær þótt á því séu fáeinar undantekningar. Ekki ber því að líta á þetta sem nýmóðins fyrsta flokks bifreið sem ástæða er fyrir breskan iðnað að líkja eftir.“  Ekki reyndust bresku sérfræðingarnir sannspáir því að Fólksvagninn náði strax miklu flugi. Hann reyndist strax traustur í notkun, ódýr og öruggur í rekstri og einfaldur í viðhaldi.

En Ivan Hirst var viss í sinni sök, að hann væri með afbragðs bíl í höndunum og hélt sínu striki og lét byggja þessa 20 þúsund bíla sem höfðu verið pantaðir. Viðtakendur þeirra voru stórhrifnir og völdu þá frekar en breska bíla ef valkostir voru í boði og nýjar og nýjar pantanir streymdu inn.  Ekkert minnsta tilefni var því að mati hans til þess að hætta. Hirst og breska svæðisstjórnin ráku framleiðsluna fram í október 1949 en þá var forræðið flutt yfir á þýskar hendur sem m.a. var ríkisstjórn sambandsríkisins Hessen. Fólksvagninn, eða Bjallan var síðan framleidd óslitið í Wolfsburg til ársins 1974 en haldið áfram um sinn í S. Ameríku, síðast í Pueblo í Mexíkó til ársins 2003. Þegar yfir lauk í Wolfsburg höfðu verið framleiddar þar yfir 21,5 milljón Bjöllur.