Sjóvá lækkar arðgreiðslur úr 3,1 milljarði í 657 milljónir kr.

Stjórn tryggingafélagsins Sjóvár ákvað fyrr í dag að lækka arðgreiðslur úr félaginu úr 3,1 milljarði í 657 milljónir króna. Breytingartillaga við fyrri tillöguna um 3,1 milljarðs arðgreiðslu verður lögð fyrir aðalfund félagsins á morgun, föstudaginn 11. mars.

Frá þessu er greint á heimasíðu Sjóvár. Í greinargerð með breytingartillögunni segir að ákvörðunin sé tekin út frá þeim viðbrögðum í samfélaginu sem fyrri tillagan hlaut. Þrátt fyrir að hún væri byggð á  yfirlýstri arðgreiðslustefnu félagsins og í samræmi við fjárhagslegan styrk þess og miðaðist við að fjárhagsstaðan yrði áfram jafn sterk eftir greiðslu arðs og hún var í ársbyrjun 2015, .þá hefði umræðan um arðgreiðslurnar byggst á misskilningi og alið á tortryggni. Við því verði að bregðast. Síðan segir: „Rangfærslur um áhrif arðgreiðslu á fjárhagslegan styrk ógna orðspori Sjóvár. Það er skylda stjórnar að gæta að orðspori félagsins og í því ljósi er þessi tillaga sett fram.

Stjórn Sjóvár harmar þá tortryggni sem beinst hefur að félaginu undanfarna daga. Með þessari breytingartillögu vill stjórn bregðast við henni og mun samhliða beita sér fyrir bættri upplýsingagjöf í því skyni að stuðla að aukinni sátt.“