SKF þróar hjóllegur fyrir framtíðarbíla

SKF í Svíþjóð hefur undirritað samstarfssamninga við Protean Electric í Bandaríkjunum um sérstakar legur fyrir rafmótora sem sambyggðir eru hjólum bíla. Þessi hjól/rafmótorar eru ætlaðir fyrir raf- og tvinnbíla. Motormagasinet greinir frá þessu.

Samningur  SKF og Protean er til næstu fimm ára og samkvæmt honum byrjar SKF á því að hanna og þróa sérstakt hjóllegukerfi og ásþétti (pakkdósir). Innbyggðir í þessi legukerfi verða margskonar skynjarar sem gefa upplýsingar um hvaðeina sem lýtur að snúningi hjólanna og álagi á þau. Þegar sér fyrir endann á þróun þessara hjólalegukerfa hyggjast SKF og Protean Electric snúa sér að því að kanna fleiri svið sem áframhaldandi samvinna er möguleg á grunni þeirrar sérþekkingar og sérhæfingar sem fyrirtækin búa yfir hvort um sig.

Tryggve Stehn framkvæmdastjóri þróunarsviðs SKF segir að þar hafi verið unnið að því að þróa tækni sem gagnast tvinn- og rafbílaiðnaðinum og dregur úr óæskilegum umhverfisáhrifum bílanna. Með því að samhæfa tækniþekkingu SKF og Protean í  hjólamótorum standi vonir til að eitthvað nýtt og gott geti komið út úr því.

Protean Electric er meðal þeirra fremstu á umhverfistæknisviðinu. Þar hefur verið unnið að hönnun og framleiðslu þessara rafknúnu bílhjóla og rafmótora sem knýja rafbíla áfram milliliðalaust (án gírkassa og mismunadrifs. Talsmaður Protean fagnar samstarfinu við SKF og segir að hönnun hjólegunnar sé algert grundvallaratriði svo mótorinn í því geti skilað aflinu á fullnægjandi hátt út í hjólið. SKF sé eini kúluleguframleiðandinn sem hafi þá þekkingu og hæfni sem til þarf til að leysa þetta verkefni með þeim hætti sem dugar og þróa það áfram.