Skilnaður milli Ford og Mazda?

http://www.fib.is/myndir/Mazda2-09.jpg http://www.fib.is/myndir/FordFiesta09.jpg

Mazda 2 tv. og Ford Fiesta. Í grunninn sami bíllinn.


Ford Motor Company hefur í fjárhagsvanda sínum selt stærstan hluta hlutabréfaeignar sinnar í Mazda. Eftir að salan átti sér stað hefur samband milli fyrirtækjanna kulnað verulega og bílafjölmiðlar herma að starfsmenn Fords komi nú að luktum dyrum hjá Mazda og fái litlar sem engar upplýsingar um  það hjá Mazda mönnum, hvað sé á döfinni í sambandi við nýjar gerðir bíla og framtíðaráætlanir yfirleitt. Bílafjölmiðlar velta því eðlilega fyrir sér nú hvort fullur skilnaður sé á döfinni og hvor aðilinn muni tapa meiru á honum.

Samvinna Ford Motor Company og Mazda hófst árið 1969 með því að tæknimenn beggja hófu að vinna saman að því að þróa gírkassa. Áratug síðar keypti svo Ford 25 prósenta hlut í Mazda og jók hann í rúm 33 prósent á samdráttarárunum á tíunda áratuginum og bjargaði trúlega fyrirtækinu frá gjaldþroti um leið. Segja má að Ford hafi þá tekið yfir stjórn Mazda, sem þó hélt lengstum fullu sjálfstæði í  tæknilegum efnum.

En margt er breytt frá því á tíunda áratuginum og Ford er ekki lengur það stórveldi sem það þá var – stórveldið sem hjálpaði vesalings lltla Mazda við að standa í lappirnar. Ford rataði í gríðarlega erfiðleika á heimavelli sínum í Bandaríkjunum, ekki síst vegna þess að menn höfðu ekki rænu á því, frekar en hjá GM og Chrysler að bregðast við síðustu olíukreppu og breyttum smekk bílakaupenda heimafyrir. Á sama tíma kom Mazda fram með hvern gæðabílinn eftir annan sem hver um sig hitti beint í mark kaupendum. Á sama tíma og Ford verið að veikjast jafn og þétt hefur Mazda styrkst jafnt og þétt.

Það leikur enginn vafi á því að á tæknisviðinu og í vöruvöndun keppir Mazda í úrvalsdeildinni. Mazdabíla hafa um langt árabil verið ýmist þeir bestu hvað varðar lága bilanatíðni og endingu eða meðal þeirra allra bestu og af því hafa evrópsku Fordbílarnir margir hverjir notið góðs. Þannig er t.d. nýjasta kynslóð Ford Fiesta í rauninni Mazda 2 sem á sinn hátt var tímamótasmábíll. Þá er núverandi Ford Focus byggður á grunni og tæknibúnaði frá Mazda og sömu sögu er að segja um hinn nýja Ford Mondeo.

Mazda hefur undanfarinn áratug gerst stöðugt sjálfstæðari í „hjónabandinu“ með Ford. Það sýnir sig ekki síst nú síðast þegar Mazda kemur fram með hinn nýja Mazda 3, því að enginn samskonar bíll frá Ford né Volvo er í sjónmáli. Auto Motor & Sport hefur eftir heimildarmönnum í Detroit að sambandið milli Ford og Mazda sé orðið ansi kalt og að verkfræðingar og hönnuðir Ford hafi fengið þá dagskipan að gefa kollegum sínum hjá Mazda ekkert upp um framtíðaráætlanir né um einstakar nýjar bílgerðir sem þeir eru að vinna að um þessar mundir.  Ford á ennþá 13 prósent í Mazda og þar með mann í stjórn fyrirtækisins. Það dugar hins vegar tæpast til að hafa úrslitaáhrif á stefnumörkun hjá Mazda.

Í þessu ljósi spyrja menn sig: Hvernig er samband Ford og Mazda eiginlega? Er fullur skilnaður í sjónmáli eða eru aðilar einungis að hvíla sig hvor frá öðrum um sinn? Ef fullur skilnaður verður, hvor aðilinn mun tapa meiru á honum?