Skiptin yfir á vetrarhjólbarðana

http://www.fib.is/myndir/ASI-logo.jpg

Ríflega 5.000 króna verðmunur getur verið á þjónustu hjólbarðaverkstæða við skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu dekkja á lítlum- til meðalstórra jeppa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 19 þjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu þriðjudaginn, 23. október sl. Mestur reyndist munurinn á litlum jeppum eða rúm 90% og á stærri fólksbílum er verðmunurinn um og yfir 80%.

Skipting, umfelgun og jafnvægisstilling á allar stærðir bíla sem könnunin náði til, var dýrust hjá Betra Grip í Lágmúla 9 en oftast lægst hjá Borgardekk í Borgartúni 36. Lægsta verð á þjónustu fyrir minni fólksbíla var hjá Hjólbarðaverkstæði Vöku á 4.800 kr. en frá stærri fólksbílum til stórra jeppa var verðið alltaf lægst hjá Borgardekkjum nema á meðalstórum jeppum þar sem Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns var lægst eða á 7.000 kr. Nesdekk var með sama verð og Borgardekk á minni jeppum á stálfelgum eða á 5.990 kr.

ASÍ athugaði einnig á sama degi verð á sömu þjónustu hjá þremur þjónustuaðilum á Akureyri. Þar er munurinn milli aðila langtum minni en á höfuðborgarsvæðinu. Verðmunurinn var mestur 1.600 kr. á stærri fólksbílum eða um 23% verðmunur. Hjólbarðarverkstæðið á Réttarhvammi 1 var oftast lægst á öllum stærðum bifreiða nema verð á minni fólksbílum með álfelgum var lægst hjá Dekkjahöllinni, Drápnisgötu og hjá Höldum, Dalsbraut 1 var verðið lægst á minni jeppum með álfelgum.

8-9% hækkun frá síðustu könnun

Þjónusta hjólbarðaverkstæða á höfuðborgarsvæðinu hefur að meðaltali hækkað um 7% frá könnun verðlagseftirlitsins ASÍ í október á síðasta ári sem er svipuð meðaltalshækkun og milli áranna þar á undan, 2005-2006. Þjónusta fyrir fólksbíla hækkaði um 6-7% frá því í fyrra en mest var hækkunin á meðal minni jeppa á álfelgum eða um 9%. Til samanburðar má geta þess að á tímabilinu á undan, 2005-2006 þá hækkaði þjónustan mest við minni fólksbíla eða um rúm 11%.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.