Skoda besti bílaframleiðandinn að mati lesenda TopGear

http://www.fib.is/myndir/Spariskodi.jpg
Sparaksturs-Skoda Octavia dísil rennir í hlað í Reykjavík eftir að hafa farið hringinn kringum landið á tæplega einum eldsneytistanki. Skömmu síðar var enn lagt af stað á Hringveginn og náði bíllinn í Víðidalinn á því sem eftir var á eldsneytisgeiminum þegar myndin var tekin.

Meira en 56.000 lesendur bílatímaritsins breska Top Gear, lögðu mat á 152 bíla í árlegri ánægjuvog tímaritsins. Niðurstöðurnar eru þær að Skoda var valinn bílaframleiðandi ársins 2006 af lesendum. Í efsta sætinu fyrir einstaka bíla varð sportbíllinn Honda S2000, í öðru sæti varð Honda Jazz. Skoda Octavia varð í þriðja sæti, Skoda Fabia í fjórða sæti og Skoda Superb í því sjöunda. Þannig voru Skodabílar í þremur af tíu efstu sætunum og það tryggði Skoda heiðurstitilinn -Bílaframleiðandi ársins 2006.

Athygli vekur að það er eldri kynslóð Octavia sem hlýtur þriðja sætið á virðingarlista Top Gear. Um hann segir tímaritið að hann sé meistarastykki áreiðanleikans eða -masterpiece of dependability. Í fjórða sæti er síðan Skoda Fabia sem er sögð töfrandi þótt ódýr sé. Loks kemur svo Skoda Superb í því sjöunda. Hann er sagður teygður VW Passat en hafnar hvorki meira né minna en 67 sætum fyrir ofan sjálfan Passatinn.

Talsmaður Top Gear, sem er eitt af leiðandi bílatímaritum heims og einskonar samsíða verkefni sjónvarpsþáttarins fræga með sama nafni, segir að það sé einstakur árangur hjá tékkneska bílaframleiðandanum að rjúfa áralanga einokun japanskra framleiðenda í efstu sætum listans, Það geri afrekið ekki minna að hafa farið fram úr Lexus. Skoda væri vel að heiðrinum komið þar sem fyrirtækið hefði nú í áratug framleitt lýtalausa bíla sem uppfylla allar þarfir eigenda sinna.

Niðurstöður könnunarinnar verða birtar í marshefti Top Gear tímaritsins. Einnig má skoða þær í meginatriðum hér.

Þess má geta að í sumar setur Skoda á markað nýjan Fabia en ný og talsvert endurbætt og rúmbetri kynslóð Octavia kom á markað 2005. Það var dísilútgáfa þess bíls sem starfsmaður FÍB ók hringinn í kring um Ísland sl. sumar á einni eldsneytistankfylli og gott betur því að eftir að hringnum var lokið var enn haldið af stað til að athuga hversu langt bíllinn kæmist á þeim slatta sem eftir var í tanknum. Skemmst er frá að segja að á honum komst bíllinn að Víðigerði í Víðidal norður í Húnaþingi. Þar drapst loksins á honum.

Síðan þetta gerðist hefur dísilútgáfa Skoda Octavia verið einn söluhæsti bíllinn á Íslandi.