Skoda missir af framleiðslu á VW Up

http://www.fib.is/myndir/VW-up!.jpg

Volkswagen Up.

Nýi borgarbíllinn og smábíllinn –Up, sem Volkswagen hyggst setja á markað undir árslok 2010 verður tæpast framleiddur hjá Skoda í Tékklandi eins og búið var að gera ráð fyrir, heldur annaðhvort á Spáni eða í Portúgal. Þau rúmlega 3 þúsund stöðugildi sem Tékkar höfðu reiknað með munu því falla öðrum í skaut. Ástæðan er sögð óstöðugleiki tékknesku krónunnar.

Tékkar eru þekktir fyrir að vera góðir bílasmiðir en landið sem þó er í Evrópusambandinu hefur ekki tekið upp evru heldur býr við sína gömlu krónu eða kórónu. Gengi hennar gagnvart evrunni er óstöðugt og erfitt að gera fjárhagsáætlanir fram í tímann. Þá er framleiðslukostnaður talinn vera of hár í Tékklandi og hvorttveggja er ekki heppilegt þegar málið snýst um framleiðslu á smábíl sem á að vera ódýr. Minnstu breytingar á gengi geta þannig raskað viðkvæmu verðjafnvægi.

Af þessum ástæðum vill Volkswagen að framleiðslan verði innan evrusvæðisins. Automotive News Europe telur að þær verksmiðjur sem helst komi til greina séu Volkswagenverksmiðjan í Pamplona á Spáni eða í Setubal í Portúgal.

Árleg framleiðsla á VW Up er áætluð 500 þúsund bílar og hugsanlega meir. Bíllinn er hugsaður fyrir ekki bara Evrópumarkaðinn einan, heldur líka fyrir hina ört vaxandi bílamarkaði í Indlandi og Rússlandi.

Ekki verður um aðeins eina gerð bílsins að ræða heldur margar, heila „bílafjölskyldu.“ Upphaflega stóð til að hafa vélina aftur í en við það hefur verið hætt, vegna þess að aksturseiginleikarnir þóttu allt of óstöðugir.