Skoda Octavia RS fær flipaskiptingu

http://www.fib.is/myndir/Octavia-rs-combi_logo.jpg

DSG gírkassar sem fyrst komu fram í Volkswagen bílum fá stöðugt meiri útbreiðslu. Þetta eru að stofni til hefðbundnir gírkassar en með tvær kúplingar sem skipta sjálfvirkt og svo mjúklega milli gíra að skiptingar finnast vart.

Nýjustu DSG-gírkassarnir í VAG bílum (Volkswagen, Audi, Skoda, Seat) eru sjö gíra og slíkur gírkassi kemur í haust í Skoda Octavia RS sem er öflugasta Oktavían. Hægt verður að skipta handvirkt milli gíra í RS bílnum með flipum á stýrishjólinu (svipað og í Formúlu 1 bílunum). Þessi búnaður verður fáanlegur í bæði bensín- og dísilútgáfu Octavia RS. http://www.fib.is/myndir/OctaviaRS.jpg

Í frétt frá Skoda í Tékklandi segir að talsvert hafi verið spurt um DSG gírkassa í hina sportlegu RS utgáfu og nú verði komið til móts við þær óskir. Framleiðsla er að hefjast og verða bílarnir fáanlegir með flipaskiptingunni í 45. viku ársins. Fyrstu flipaskiptu bílarnir verða með tveggja lítra túrbínubensínvél.