Skoda Superb efstur

Í samanburðarprófi fjögurra nýrra dísilknúinna skutbíla í stærri milliflokki hjá Auto Motor & Sport í Þýskalandi fer Skoda Superb með sigur af hólmi. Í þessari prófun eru bílarnir grandskoðaðir, mældir og vegnir og síðan ekið samkvæmt fyrirfram ákveðinni formúlu af hópi reynsluökumanna. Gefin eru stig fyrir hvert þessara atriða og voru alls 650 stig í boði.

 

http://www.fib.is/myndir/Skoda-Superb-C.jpg
Skoda Superb Combi 2.0
TDI Elegance

Skodinn, sem fullu nafni nefnist Skoda Superb Combi 2.0 TDI Elegance, hlýtur 496 stig af þessum 650. Helstu kostir hans þykja þægindi á langferðum fyrir farþega og ökumann, gott vélarafl, sparneytni. Þá þykir hann vera á mjög hagstæðu verði og í honum fæst mest fyrir peningana.

http://www.fib.is/myndir/Mazda-6-KombiC.jpg
Mazda 6 Kombi 2.2 MZR-CD
Sports-Line

Í öðru sæti er Mazda 6 Kombi 2.2 MZR-CD Sports-Line. Mazdan fær 475 stig af 650. Hún hefur verið uppfærð bæði í útliti og innviðum. Breytingarnar þykja vel heppnaðar og bíllinn afar þægilegur í akstri og mjúkur. Mýktin sé þó alls ekki á kostnað aksturseiginleikanna.

http://www.fib.is/myndir/Renault-Laguna-Grandtour.jpg
Renault Laguna Grandtour
dCi 180 FAP GT

Í þriðja sæti er Renault Laguna Grandtour dCi 180 FAP GT sem fær 467 stig af 650. Þessi bíll þykir hafa bestu aksturseiginleikana þegar kemur að akstri í neyðartilvikum. En góðu eiginleikarnir séu fengnir með því að fórna mýkt og þægindum. Vélin sé öflug en eyðslufrek.

http://www.fib.is/myndir/Opel-Insignia-Sports-Tourer.jpg
Opel Insignia Sports Tourer
2.0CDTi Cosmo

Í fjórða og neðsta sætinu í þessum samanburði lendir svo Opel Insignia Sports Tourer 2.0 CDTi Cosmo með 465 stig af 650. Aksturseiginleikar Opelsins eru sagðir öruggir og hemlarnir öflugir, en gangverkið, vél og gírkassi, virki grófgert. Innrétting og innanrými er sagt í meðallagi.