Skoda vill byggja VW up!

http://www.fib.is/myndir/VW-up!.jpg
VW up!


Í viðtali við tékkneska dagblaðið Hospodarske Noviny segir Reinhard Jung forstjóri Skoda að samningaviðræður standi nú yfir við móðurfyrirtækið Volkswagen um að nýi smábíllinn, VW up! sem sýndur var sem hugmyndarbíll á bílasýningunni í Frankfurtf í september, verði framleiddur hjá Skoda. Engin ákvörðun liggi þó fyrir enn. Auto Motor & Sport greinir frá þessu í dag.

Verði af fjöldaframleiðslu á VW up! þá er Volkswagen að leita á ný til upprunans sem var framleiðsla á ódýrum, einföldum og traustum bíl  með vélina afturí skotti. Markmiðið er að bíllinn kosti einungis 6 þúsund evrur, sem út af fyrir sig þýðir að byggja verður bílinn utan Þýskalands. Ef af framleiðslu verður, sem flest vissulega bendir til, mun fjöldaframleiðsla hefjast 2010-2011.

Volkswagen up verður borgarbíll með vélina afturí eins og gamla Bjallan. Ytri mál frumgerðarinnar sem sýnd var í Frankfurt eru 3,45 m að lengd,  1,63 m að breidd með góðu innra rými og innréttingu sem auðvelt er að breyta eftir því hvað þarf að flytja.

Ekkert hefur verið látið uppi um hverskonar vélar verða í boði. Einungis hefur verið sagt að ýmisir möguleikar komi til greina, m.a. tveggja og þriggja strokka bensín og dísilvélar eða þá tvinnvélar. Aðalhönnuður bílsins er yfirhönnuður VW sem heitir Walter de Silva. Hann hefur sagt að VW up sé þrauthugsaður bíll og sé einskonar opinberun nýrrar framtíðarhönnunar Volkswagenbíla yfirleitt. Botnplata bílsins sé þannig gerð að auðveldlega má breyta henni og stækka og þróa þannig nýjar gerðir út frá VW up! t.d. blæjubíl, jeppling eða kannski nýjan Porsche 356, hver veit?