Skódar með 4X4 og DSG

Skoda í Tékklandi hefur aukið verulega valkosti fyrir kaupendur bíla sinna því að framvegis verða nýir bílar af bæði Octavia og Superb gerðum fáanlegir með sítengdu fjórhjóladrifi og DSG gírkössum sem skipta sér sjálfir.  Fjórhjóladrif og DSG gírkassar verða framvegis fáanlegir með bæði dísil- og bensínknúnum Skodabílum.

http://www.fib.is/myndir/Skoda_Superb_4x4.jpg
Skoda Superb með Haldex fjórhjóladrifskerfi.

 Skoda gerir þetta til að mæta verulegri eftirspurn og ekki stendur á viðbrögðum kaupenda því að fimmti hver Skoda Superb lúxusbíll sem selst í heiminum í dag er með fjórhjóladrifi og DSG sjálfskiptingu. DSG stendur fyrir direct shift gear og er í raun hefðbundinn gírkassi með tveimur kúplingum sem skiptir sjálfur milli gíra, bæði upp og niður. Þessháttar gírkassar hafa hingað til verið í Volkswagen bílum en færast nú einnig í bíla frá dótturfyrirtækinu, Skoda.

Fyrsta Skodagerðin með DSG gískassa kom fram fyrr á árinu, en það er jepplingurinn Skoda Yeti. Framleiðsla á öðrum Skodagerðum með DSG kössum hófst hins í byrjun vikunnar, sem er 45. vika ársins. 

 Fjórhjóladrifskerfið sem sett er í Skoda Octavia og Superb er sænskt af gerðinni Haldex. Það er fjórða kynslóð þessa kerfis sem er í Skodabílunum. Kerfið vinnur þannig að í venjulegum akstri er 96 prósent aflsins í framhjólunum. Ef aðstæður breytast hins vegar, t.d. í hálku, snjó eða á lausamöl finna skynjarar það og tölva miðlar síðan aflinu frá þeim hjólum sem eru við það að spóla hverju sinni, til hinna sem betra hafa veggripið.