Skógarbjörn í Bayern-Ölpunum étur búfénað og skelfir fólk

http://www.fib.is/myndir/Bruno-bangsi.jpg


Ungur villtur brúnn skógarbjörn hefur undanfarnar vikur gert bændum í þýsku Ölpunum lífið leitt með því að drepa og éta rollur þeirra, hænsni og kanínur og skelfa ferðamenn, vegfarendur og göngufólk. Undanfarinn mánuð hafa veiðimenn reynt að finna björninn og fanga hann en án árangurs. Björninn, sem fjölmiðlar hafa gefið nafnið Bruno, er fyrsti villti brúnbjörninn sem vart verður við í 170 ár í Bayern.

Seint í gærkvöldi varð Bruno bangsi fyrir bíl Austurríkismanns sem var á ferð á sveitavegi sunnan við smábæinn Bad Tölz skammt frá landamærum Bayern og Austurríkis. Bíllinn skemmdist nokkuð en var þó ökuhæfur. Óljóst er hvort eða hversu mikið bangsinn slasaðist, en hann hvarf út í myrkrið eftir áreksturinn og nú spá bændur í hvort áreksturinn muni leiða til þess að Bruno hafi hægar um sig framvegis eða hvort hann verði enn grimmari og varasamari en áður.

Yfirvöldum er mjög umhugað um að fanga Bruno hið fyrsta vegna þess hve iðinn hann hefur verið við að drepa og éta búfénað og hversu ósmeykur hann er við menn, sem mun þykja óvenjulegt þegar birnir almennt eiga í hlut.

Ekkert hefur hins vegar gengið að fanga Bruno. Sérstakt veiðimannagengi með sérþjálfaða hunda í því að rekja slóðir bjarna hefur verið kallað til frá Finnlandi til þess verks. Það varð að hætta leit sinni þar sem hundarnir sem vanir eru að leita uppi karelíska skógarbjörninn, þekktu ekki lyktina af Brúnó og gáfust upp. Frá þessu er greint í Der Spiegel.