Skortur á íhlutum hjá Skoda kemur hart niður á tékkneskum efnahag

Bílaframleiðendur víða um heim glíma við mikinn skort á flögum og öðrum íhlutum til framleiðslunnar. Þetta ástand hefur leitt til þess að framleiðendur hafa þurft að takamarka framleiðsluna og fyrir vikið verður seinkun á afhendingu á bílum til nýrra kaupenda. Dæmi eru um nokkurra mánaða seinkun og er áhrifa farin að gæta meðal annars hér á landi.

Tékkneski bílaframleiðandinn Skoda hefur ekki farið varhlutan í þessum efnum og hefur verksmiðja fyrirtækisins þurft að hægja á framleiðslunni og jafnvel þurfi að grípa til enn harðari aðgerða. Í tilkynningu frá Skoda kemur fram að draga þurfi úr framleiðslunni og jafnvel stöðva hana alveg vegna skorts á flögum og öðrum hlutum fram að áramótum. Ofan á allt saman kom fram bilun í einni framleiðslulínu fyrirtæksins í síðustu viku. Ofurkapp verður lagt á að ljúka smíði á tíu þúsund bílum og alls ekki víst að það takist.

Afleiðingar heimsfaraldursins eiga stærsta þátt í því ástandi sem komið er upp hjá bílaframleiðendum. Áhrifa gætir að vísu í allri iðnaðarframleiðslu um allan heim. Tomas Kotera, talsmaður Skoda, segir að fyrirtækið hafi glímt við mikinn skort á mikilvægum íhlutum sem hafi leitt til takmarkana og dregið verulega úr framleiðslunni á síðustu vikum. Við gætum allt eins þurft að búa við þetta ástand á næstu mánuðum

Bílaframleiðsla er ein helsta burðarásinn í tékknesku efnahagslífi. Í þessum geira starfa um 180 þúsund manns. Tékkneska bíliðnarsambandið segir að bílaiðnaðurinn þar í landi muni framleiða fjórðung færri bíla á þessu ári en búist hafði verið við. Þetta muni kosta bílaiðnaðinn þar í landi hundruði milljarða króna tap í rekstrinum.