Skrifað undir samning um Dýrafjarðargöng

Um miðjan maí verður athöfn í Arnarfirði þar sem fyrsta skóflustunga ganganna verður tekin að viðstöddum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vegamálastjóra, sveitarstjórnarmönnum og alþingismönnum og verður hún jafnframt opin almenningi.

Fyrsta skóflustungan fer fram við gangamunnann í Arnarfirði og jafnframt verður dagskrá á Hrafnseyri þar sem flutt verða stutt erindi um vegagerð á Vestfjörðum og fleira auk þess sem boðnar verða kaffiveitingar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vegamálastjóri og forráðamenn verktakafyrirtækjanna Suðurverks og Metrostav frá Tékklandi skrifuðu í síðustu viku undir samning um gerð Dýrafjarðarganga en fyrirtækin áttu lægsta tilboð af fimm í verkið. Undirbúningur framkvæmda getur nú hafist.

Áætlað var að skrifa undir samninginn þann 20. apríl á Hrafnseyri við Arnarfjörð að viðstöddum gestum. Vegna veðurs og ófærðar á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðum var það ekki hægt.

Ekki var heldur hægt að fresta undirskriftinni lengi, fulltrúar Metrostav voru komnir frá Prag til að skrifa undir og ekki heldur gott vegna verksins sjálfs að fresta undirskrift. Það var því skrifað undir í Reykjavík í dag. Jafnframt var ákveðið að hafa athöfn og fund á Hrafnseyri og við gangamunnann í Arnarfirði þar sem verkið verður hafið um miðjan maí með formlegri athöfn eins og áður er sagt og tekin fyrsta skóflustunga.

Í ár er ráðgert að vinna fyrir 1.500 milljónir króna samkvæmt fjárlögum og fyrir um 3 milljarða á því næsta. Tilboð Metrostav a.s. og Suðurverks hf. í gerð Dýrafjarðarganga nam tæpum 8,7 milljörðum króna eða rúmum 93 prósentum af kostnaðaráætlun og var um 630 milljónum króna lægra en næstu boð sem bæði voru nánast það sama og kostnaðaráætlunin.

Tilboðin voru opnuð hjá Vegagerðinni 24. janúar síðastliðinn. Áður hafði farið fram forval þar sem sjö fyrirtæki sýndu verkinu áhuga. Fimm skiluðu  tilboði, allt verktakar sem reynslu hafa af jarðgangagerð á Íslandi nema ítalski verktakinn C.M.C. di Ravenna.