Skrifað undir verksamning um Lögbergsbrekku

Framkvæmdir eru hafnar við tvöföldun Suðurlandsvegar frá Fossvöllum vestur fyrir Lögbergsbrekku skammt ofan Reykjavíkur, með hliðarvegum og undirgöngum fyrir reiðvegi.

Það voru þeir Árni Geir Eyþórsson frá Jarðvali sf. og Árni Snær Kristjánsson frá Bjössa ehf. sem skrifuðu undir verksamning ásamt forstjóra Vegagerðarinnar Bergþóru Þorkelsdóttur. Þeir nafnar sögðu þetta afar jákvætt að hafa nú skrifað undir og reiknuðu með því að hefja störf á verkstað þegar í stað.

Bergþóra sagði ánægjulegt að vera búin að skrifa undir verksamning um þetta verk en óvenjulangan tíma tók að fá framkvæmdaleyfi vegna stöðu á skipulagsmálum á svæðinu.Tilboð þeirra hljóðaði upp á rúma 790 m.kr. sem var um 85 prósent af kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. 

Vegagerðin ætlast til að verkið verði unnið hratt og skammtar nauman verktíma. Áætlað að verkinu verði lokið á vormánuðum 2022.