Slæmar holur hafa myndast á Hellisheiði og í Kömbum
Mjög mikið er af slæmum holum á Hellisheiðinni og eru vegfarendur beðnir að aka með gát. Stórar og djúpar holur á Hellisheiði og í Kömbum hafa gerta ökumönnum lífið leitt í morgun. Vegagerðin vinnur að viðgerðum á holunum, sem orðið hafa til eftir umhleypingar síðustu daga.
Vegagerðinni fóru að berast tilkynningar um holur á þjóðveginum á Suðurlandi í gær. Ástandið er hvað verst neðst í Kömbunum við Hveragerði á leið til Reykjavíkur og hins vegar á gatnamótunum við Hamragilsveg að Hellisheiðarvirkjun. Umhleypingar síðustu daga fari illa í slitlögin, og afleiðingarnar verði gjarnan þessar.
Þó nokkuð er um að dekk hafa sprungið auk annarra skemmda á bílum. Vinnuflokkar frá Vegagerðinni vinna að viðgerðum á vegum sem standa munu fram eftir degi.