Slæmar yfirborðsmerkingar vega

Í bílablaði Morgunblaðsins í dag er greint frá ökuferð á nýjum bíl með búnaði sem les mið- og kantlínur í yfirborði vega og varar ökumann við þegar bíllinn stefnir inn á rangan vegarhelming eða út af veginum.

Það voru blm. Morgunblaðsins; Malín Brand og Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og tæknistjóri Euro RAP á Íslandi sem fóru þessa ferð og niðurstaðan er í stuttu máli sú að umræddar yfirborðsmerkingar veganna eru í svo miklu skötulíki að myndavélar og úrvinnslubúnaður bílanna á í erfiðleikum með að lesa þær og túlka.

http://www.fib.is/myndir/Vegl1.jpg
Góðar og vel sýnilegar mið- og kantlínur
eru nauðsyn, ekki síst þegar skyggni
versnar.
http://www.fib.is/myndir/Vegl2.jpg
Kantlínan sem markar skil akbrautar
og vegaxlar er vart sýnileg.

Og fyrst tæknibúnaðurinn á í erfiðleikum með þetta, þá má ætla að svipað eigi við um ökumennina sjálfa – að hætta sé á að þeir leiðist á villigötur vegna þess að merkingarnar eru misvísandi og meira eða minna úr takti við þær forskriftir og staðla sem um þær gilda. Hætta á slysum eykst.

Miðlínur og kantlínur vega eru mikilvæg öryggisatriði. Þær sýna þeim akandi rétta staðsetningu ökutækisins á vegum og akreinum og nú í seinni tíð eru komin í nýja bíla tæki sem lesa þessar línur og og vara ökumann við ef hætta er á ferðum eða jafnvel grípa inn í aksturinn til að afstýra hættuástandi. En tækin gagnast lítt ef yfirborðsmerkingarnar eru misvísandi, ranglega gerðar og/eða illa við haldið. Þá má vera ljóst ef þessar merkingar eru rangar og misvísandi og auk þess illa við haldið dugar nýjasti öryggisbúnaðurinn vart til að lesa úr þeim. Þá ætti það ekki síður að vera ljóst að ökumennirnir sjálfir geta átt í erfiðleikum með að staðsetja ökutæki sín rétt á vegum.

Frétt Morgunblaðsins í heild er að finna hér.