Slitlag á vegum víða illa farið og bílar orðið fyrir tjóni

Fjölmargar bílar urðu fyrir skemmdum vegna djúpra holu sem myndaðist á vegkafla í Mosfellsbæ á Vesturlandsvegi í vikunni. Bifreiðaeigendur leituðu aðstoðar á dekkjaverkstæðið í Mosfellsbæ vegna skemmda á felgum og dekkjum. Starfsmenn Vegagerðarinnar hófu í gær viðgerðir  á umræddum holum og ætti viðunandi ástand að vera á svæðinu núna. Fréttir hafa borist af fleiri holum sem gert hafa bílstjórum skráveifu í leysingunum síðustu daga.

Í þessari umræðu vaknar sú spurning hvort þeir sem hafa orðið fyrir tjóni af þessum völdum fái ekki tjón sín bætt ef vegahaldarar hafi ekki verið kunnugt um holu sem olli tjóni. FÍB setti sig í samband við tryggingafélagið Sjóvá og innti eftir hvort félagið hafi orðið vart við aukin fjölda frá þeim sem tilkynntu um tjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna holumyndanna á götum síðustu daga.

Þær upplýsingar fengust að ekki hefðu borist tilkynningar um tjón sem snéru sérstaklega að atvikinu á Vesturlandsvegi. Eitthvað hefði þó verið hringt og fólk óskað eftir upplýsingum um tjón sem hlytust að þessu tagi. Öðru hverju berast tilkynningar en þeir merktu ekki aukningu upp á síðkastið en það væri auðvitað misjafnt hversu fólk er fljótt að tilkynna tjón sem það hefur orðið fyrir.

Í 43. grein vegalaga (80/2007) sem fjallar er um viðhald vega og vegaskemmdir segir:

Veghaldari ber ábyrgð á því að vegi, sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar, sé við haldið með eðlilegum hætti miðað við þá umferð sem um veginn fer.

Veghaldari skal svo fljótt sem við verður komið eftir að hann hefur fengið vitneskju um skemmdir á vegi, sem hættulegar eru umferð, láta gera við þær eða merkja hina hættulegu staði þar til viðgerð hefur farið fram og skulu merkingar vera í samræmi við ákvæði umferðarlaga.

Ráðherra getur með reglugerð sett nánari kröfur um viðhald vega.

Í 56. grein vegalaga er fjallað um bótaábyrgð veghaldara.

Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.

FÍB telur ástæðu til að skoða það nánar hvort veghaldarar hafi með aðgerðarleysi og vanrækslu við viðhald skapað sér skaðabótaskyldu.  Ljóst er að pólitískar ákvarðanir um niðurskurð á fjármagni til nýbygginga og viðhalds vega hafa haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar.  Vegagerðin hefur ítrekað varað við neikvæðum áhrifum þessa sparnaðar og sama á við um vegaumsjónaraðila stærri sveitarfélaga.  Opinberir aðilar hafa verið þess full meðvitaðir að athafnaleysi til nokkurra ára hefur í för með sér alvarlegt niðurbrot vega. 

Þegar þiðnar koma skemmdir fram

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru slitlög á vegum landsins víða illa farin eftir veturinn og umhleypinga undanfarið. Enn fremur hefur snjómoksturinn ekki bætt úr skák og farið illa með slitlagið að sögn upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.

Nú þegar þiðnar þá koma í ljós illa farin slitlög sem verða lagfærð eins fljótt og kostur er. En vegna umfangsins og umhleypinganna sjálfra er ekki unnt að laga allt samstundis. Vegfarendur eru því beðnir um að aka með gát og vera viðbúnir hugsanlegum skemmdum í slitlaginu, hvort heldur er malbiki eða klæðingu. 

Ekki er hægt að sjá fyrir og tímasetja áætlun í viðhaldi á vegskemmdum enda geta þær myndast skyndilega. Erfitt er að gera sér grein fyrir ástandi undirlags vegar og geta aðstæður því verið ófyrirsjáanlegar. Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa eftirlit með vegum og grípa til aðgerða um leið og þeir verða varir við eða fá tilkynningar um holur á vegum.

Fram kemur hjá Vegagerðinni að aldrei verður þó hægt að koma í veg fyrir að skemmdir í malbiki og klæðingu komi í ljós þegar vorar, ekki við þær veðuraðstæður sem ríkja á Íslandi. Einnig eru ekki alltaf aðstæður til að lagfæra vegskemmdir um leið og þeirra verður vart en í slíkum tilvikum er brugðist við með merkingum þegar þörf er á.

Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna hörðum höndum við að laga allra verstu vegskemmdirnar en Vegagerðin biðlar til ökumanna að sýna sérstaka aðgæslu við aksturinn. Því er mikilvægt að ökumenn séu vakandi fyrir því að slitlagið er ekki allsstaðar eins gott og ætti að vera. Aðgæsla ökumanna er besta leiðin til að forða tjónum.

43 km af malbiki lagðir í sumar í Reykjavík

Þess má geta að Reykjavíkurborg hefur ákveðið að leggja 43 kílómetrar af malbiki í sumar og er kostnaður áætlaður tæpir tveir milljarðar króna. Aldrei hafi verið malbikað jafn mikið í borginni á einu ári. Um er að ræða bæði malbikun yfirlaga sem og endurnýjun með fræsingu og malbikun.

Lagt er til að 43 kílómetrar af götum borgarinnar verði malbikaðir sem er algjört met í malbikun á einu ári. Það eru um 10% af heildarlengd gatnakerfisins í Reykjavík. Kostnaðaráætlun fyrir malbikun yfirlaga er 1.740 milljarðar en að auki verður unnið við malbiksviðgerðir og er kostnaður við þær áætlaður 237 milljónir króna.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) býður upp á snjallsímaforrit (app) sem veitir vegfarendum tækifæri með einföldum hætti til að koma upplýsingum um holur í götum og vegum til veghaldara. Tilgangur FÍB með holu-appinu er að auka öryggi vegfarenda í umferðinni og draga um leið úr tjónakostnaði bíleigenda og samfélagsins í heild.

Hér ásamt fleiri upplýsingum er hægt að nálgast Holu appið