Slysarannsóknir Volvo í yfir 40 ár

Þegar flugslys verða er það rannsóknanefnd flugslysa sem fer á staðinn og sérstök slysarannsóknanefndir rannsakaa alvarleg sjó- og umferðarslys.  Svona er þetta líka í löndunum í kring um okkur nema kannski í Svíþjóð þar sem eigin slysarannsóknadeild Volvo hefur frá stofnun hennar fyrir 40 árum rannsakað flest slys þar sem Volvobílar koma við sögu.  Þessar slysarannsóknir Volvo, sem eru viðbót við hinar opinberu rannsóknanefndir, hafa leitt til endurbóta á bílunum sem gert hafa þá sífellt öruggari.

 Í þau 40 ár sem slysarannsóknadeild Volvo hefur starfað hefur safnast upp mikill og einstakur gagnagrunnur hjá Volvo um slysin, hvernig og hversvegna þau urðu, hverjar afleiðingar þau höfðu og hvers vegna. Á þessum upplýsingum hafa menn svo byggt þegar gerðar voru endurbætur á bílunum eða þegar nýjar gerðir eða slysavarnakerfi í þá voru í smíðum.

http://www.fib.is/myndir/Volvo3pt-2.jpg
Auglýsingamynd frá Volvo frá 1966. Þriggja punkta öryggis-
beltið er orðið staðalbúnaður í Volvo Amazon.

Upphaf slysarannsóknadeilarinnar er rakið til ársins 1966, fáum árum eftir að Volvo-verkfræðingurinn Nils Bohlin hafði fundið upp þriggja punkta öryggisbeltið og uppfinningin komin í framsæti allra nýrra Volvobíla sem staðalbúnaður. Þá vildu menn meta áhrif þriggja punkta beltisins og því frannsökuðu fræðimenn Volvo öll slys sem Volvobílar komu við sögu í Svíþjóð í heilt ár. Sú rannsókn staðfesti að beltin fækkuðu slysum og dauðsföllum um 50 prósent, hvorki meira né minna.

Þessi rannsókn árið 1966 staðfesti fyrir Volvo mönnum nauðsyn þess að rannsaka og komast almennilega að því hvað gerist með fólkið í bílnum þegar slys og árekstrar eiga sér stað, til þess að geta byggt öruggari bíla framvegis. Og sú varð niðurstaðan að slysarannsóknadeild Volvo var svo stofnuð formlega árið 1970. 

 Sjálf aðferðafræðin og verklagið við slysarannsóklnirnar hafa smám saman tekið breytingum í áranna rás. Enn eru þó allar endurbætur á öryggisþáttum bílanna byggðar á gögnum sem fengin eru frá raunverulegum slysum og atburðum þeim tengdum. Einn slysarannsóknarmannanna segir að í tímans rás hafi mönnum lærst það að ökumenn gera ekki nærri alltaf það sem búast mætti við fyrirfram og því verði framvinda slysa og óhappa oft allt önnur en vænta hefði mátt.  

 Vinna slysarannsóknadeildarinnar beinist einkum að tvennu: Annars vegar eru sjálf slysin rannsökuð í þaula til að komast að því hvernig slysavarnakerfi bílanna bregðast við í slysum og hvernig fólkið í bílnum slasast. Hinn meginþátturinn er að safna saman upplýsingunum í tölfræðilegan gagnagrunn sem gerir það mögulegt að sjá fyrir hvernig, hvenær og hversvegna ákveðnar tegundir slysa  eiga sér stað. Þessar upplýsingar ásamt upplýsingum og gögnum úr árekstrarprófunum Volvo nýtast síðan fyrir hönnuði, verkfræðinga og lækna, þegar að því kemur að hanna og byggja nýjar gerðir bíla.