Smá bati í sölu nýrra bíla

Frá áramótum og fram til 23. ágúst sl. hafa samtals 2.442 nýir bílar verið skráðir á Íslandi. Það er því ljóst af þessum tölum að innflutningur nýrra bíla verður aðeins meiri í ár en í fyrra því að allt það ár voru 2.570 nýir bílar skráðir. Í fyrra voru alls 8.238 bílar afskráðir á Íslandi þannig að bílum á skrá fækkaði um 5.668. Þetta kemur fram á tölfræðivef Umferðarstofu.

Toyota hefur það sem af er þessu ári verið söluhæsta bílategundin á Íslandi með 530 nýja bíla skráða. Suzuki er í öðru sæti með 347 nýja bíla skráða. Í því þriðja er svo Volkswagen með 325 nýja bíla skráða, í því fjórða er Hyundai með 286 og því fimmta er Chevrolet með 235 skráða nýja bíla.

 Aðrar vinsælar bílategundir með yfir 100 skráningar nýrra bíla eru svo Honda (149), Skoda (113) og Ford (109).  Athygli vekur að á þessum lista skýtur gamall kunningi upp kollinum eftir langt hlé. Það er Lada Niva sem hér kallaðist Lada Sport. Þetta er enn sami „gamli“ bíllinn og áður nema vélin er 1,7 lítra í stað 1,6 áður og í stað blöndungs er komin bensíninnsprautun frá GM. 16 Lödur hafa verið nýskráðar á þessu ári og eftir því sem best er vitað, eru flestar þeirra í útleigu hjá bílaleigum.

 Ýmsir stærri fólksbílar og lúxusbílar sem streymdu til landsins á „kúlulánaárunum“ eru orðnir fáséðir. Sem dæmi má nefna að aðeins einn nýr Range Rover hefur verið skráður á árinu, fimm Audi og þrír Lexusbílar.

 Aðrar nú fáséðar tegundir eru t.d. Fiat en fimm Fiatbílar eru á listanum, allir húsbílar. Þá hafa verið skráðir 41 af gerðinni Kia, 39 Mazdabílar 26 Volvo,  25 Nissan 18 Mercedes, 16 Citroen, 3 Daihatsu, 2 Renault og einn Dodge. Sjá nánar hér.