Smábíll frá keppnisbílahönnuði

Kappakstursbílahönnuðurinn Gordon Murray hefur skapað sérlega hugvitssamlegan og athyglisverðan borgarbíl; T25. Þrátt fyrir smæð bílsins er hann þriggja manna með allt að 720 lítra flutningsrými. Við hönnunina leitaðist Murray við að hafa bílinn sem allra umhverfismildastan og sem skilji eftir sig sem allra minnst CO2 „spor“ frá byggingu til „dauðadags“ bílsins.

http://www.fib.is/myndir/Murray-T25.jpg
Ökumaður situr fyrir miðju en farþegarnir tveir
sínu hvoru megin og aftan við hann.

Murray hannaði ekki bara bílinn sjálfan heldur líka allt byggingar- og framleiðsluferli hans í því skyni að gera það sem allra umhverfismildast. Yfirbyggingin er t.d. úr endurnýttum gosdrykkjaflöskum og bíllinn er hannaður þannig að hann er fluttur ósamsettur milli heimshorna til að spara sem mest skipsrými, en settur síðan saman á sölustað. Samsetningin verður mjög einföld og getur farið fram á nánast hvaða bílaverkstæði sem er. Gordon Murray skýrir þetta mjög vel í viðtali við sjónvarpsþáttinn 5th Gear.

Gordon Murray á langan, farsælan og merkilegan feril í hönnun kappakstursbíla eins og Formúlu 1 bíla og ofursportbíla eins og McLaren F1. Hann segir í viðalinu við 5th Gear að fyrir sjálfan sig hafi hann alltaf haft mestan áhuga á smábílum og heimilisbíll hans sé reyndar Smart. Hann hafi lengi dreymt um að hanna góðan, sparneytinn og notadrjúgan smábíl til borgarnotkunar.

T25 bíllinn er einungis 240 sm langur, 130 sm breiður og 140 sm á hæð. Hann er 575 kg að þyngd. Hann er hugsaður bæði sem bensínknúinn  og rafknúinn. Bensínvélin er þriggja strokka 660 rúmsm, 51 hestafl. Við hana er fimm gíra sjálfskiptur gírkassi svipaðrar gerðar og DSG gírkassarnir hjá Volkswagen. Hámarkshraðinn er um 140 km á klst. 

http://www.fib.is/myndir/Murray_t25teikn.jpg