Smart dregur saman seglin

The image “http://www.fib.is/myndir/Smartformore.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Smart Formore jepplingurinn. Þessi bíll verður aldrei framleiddur.
DaimlerChrysler hefur boðað róttækar aðgerðir og niðurskurð í Smart-deildinni. Hætt hefur verið við fyrirhugaðar gerðir eins og jepplinginn Formore og sömuleiðis verður hætt að framleiða sportbílinn Smart Roadster. En jafnframt verður minnsti Smart bíllinn, hinn tveggja manna örbíll Smart Fortwo markaðssettur í Bandaríkjunum þar sem honum hefur verið betur tekið en menn þorðu að vona.
Smart deildin hjá DaimlerChrysler hefur frá upphafi verið rekin með tapi og er markmið niðurskurðarins nú að koma rekstrinum upp í núllið – ná jafnvægi fyrir árið 2007.
Fyrsta stig þessara aðgerða litu raunar dagsins ljós fyrir bílasýninguna í Detroit fyrir skömmu. Þar stóð til að sýna frumgerð nýja jepplingsins Formore en hætt við það á síðustu stundu. Í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum stóð að framleiðslu bílsins væri slegið á frest, en nú er tilkynnt að endanlega hafi verið hætt við að framleiða Smart Formore. Sportbíllinn Smart Roadster og undirgerð hans Smart Roadster Coupe verða framleiddir út þetta ár, en síðan hætt endanlega. Smart Roadster var mjög vel tekið af bílablaðamönnum sem hafa mært hann mjög sem bráðskemmtilegan lítinn sportbíl sem jafnframt er sérstaklega sparneytinn. Það hefur þó lítið orðið bílnum til framdráttar því að hann hefur selst illa.
Upphaflegi Smart bíllinn,örbíllinn Smart Fortwo verðu nú styrktur þannig að hann uppfylli bandarískar kröfur um árekstursþol. Þar með opnast Bandaríkjamarkaðurinn fyrir þennan bíl. Hann hefur hingað til verið fluttur inn af einstaklingum og smærri fyrirtækjum sem hafa á eigin verkstæðum endurbætt hvern og einn bíl til að mæta kröfum um árekstursþol. Eftirspurnin eftir bílnum hefur verið talsverð og mjög vaxandi og mikill áhugi fyrir bílnum. Komið verður til móts við eftirspurnina með því að selja Smart á sölustöðvum Mercedes Benz í Bandaríkjunum.
The image “http://www.fib.is/myndir/Smartroadster.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Smart Roadster. Verður framleiddur út þetta ár.