Smart Forstars

Á bílasýningunni í París undir mánaðarlok ætlar Smart að sýna nýjan fjögurra manna bíl sem enn er á hugmyndarstigi. Hann nefnist Smart Forstars og er fjórhjóladrifinn, einskonar smájepplingur.

Smart hefur undanfarin ár einbeitt sér að framleiðslu tveggja sæta bílsins Smart Fortwo. Allmörg ár eru síðan hætt var framleiðslu á fjögurra sæta bílnum Forfour og sportbílnum Roadster. Nýi hugmyndarbíllinn er stærri en Forfour var, djarflega hannaður og frumlegur í útliti og innréttingu. Hann er drifinn áfram af rafmagni en með ljósavél um borð. Ef til vill er hér loks kominn arftaki Smart Forfour.

Smart er dótturfyrirtæki Daimlers (Mercedes Benz). Milli Daimlers og Renault er nú hafið samstarf um þróun og framleiðslu smá- og minni bíla og er þessi nýi Smart hugmyndarbíll án vafa sprottinn úr þeim jarðvegi. Þegar er kominn fram nýr sendibíll undir nafni Mercedes, en er í grunninn Renault Kangoo. Þá verður ný gerð tveggja sæta bílsins Smart Fortwo sem senn er væntanleg, byggð á Renault Twingo og framleidd undir merkjum bæði Renault og Smart.

Smart Forstars hugmyndarbíllinn er talsvert stærri en gamli Forfour var, eða 3,55 m langur, 1,71 m að breidd og rúmlega 1,50 m á hæð. Jafnframt er hann 60 sm lengri milli hjóla en gamli Forfour var.

Afl- og drifbúnaðurinn í hugmyndarbílnum er hið sama og í Smart Fortwo Brabus Electric Drive. Aflið er 82 hö og rýmd rafgeymanna er 17,6 kílóWattstundir. Nánari upplýsingar má sjá í PDF fréttatilkynningu frá Smart.