Smart í áratug

http://www.fib.is/myndir/Smart-Noble.jpg

Með síhækkandi olíuverði hefur áhugi almennra bílakaupenda vaxið fyrir hinum örsmáa og tveggja manna Smart bíl. Bíllinn nýtur talsverðra vinsælda í evrópskum borgum. Sárafá eintök fyrirfinnast hér á landi sem einstaklingar hafa sjálfir keypt erlendis og flutt inn eða látið flytja inn fyrir sig.

Ekki er nema rúmt ár síðan stjórnendur Mercedes Benz hugsuðu alvarlega um að hætta við Smart og gefa fyrirtækið alveg upp á bátinn. Reksturinn hafði þá aldrei náð að skila hagnaði en nú lítur loksins út fyrir að hagnaður verði á árinu – í fyrsta sinn. Það er þakkað síhækkandi olíuverði en eftirspurn eftir Smart bílum hefur vaxið í réttum takti við hækkandi eldsneytisverð. Smart eru einungis 2,5 metra langir tveggja manna bílar en fást með bæði bensín- og dísilvélum. Allar eru vélarnar þriggja strokka og þær aflmestu eru rúmlega 80 hestöfl.

Eftirspurnin hefur vaxið mikið í Evrópu en einnig í Kína og Bandaríkjunum þar sem Smart hefur nýlega verið markaðssettur í fyrsta sinn. Eftirspurnin þar er reyndar nógu mikil til þess að hjá Mercedes íhuga menn nú að reisa sérstaka verksmiðju til að byggja Smart bíla.

Berlingske Tidende greinir frá því að Smart hafi fram að þessu ekkert selst í Danmörku vegna þess hve dýr hann þótti. Nú sé það skyndilega breytt og allt í einu er það orðið mjög smart að aka í Smart og bíllinn tekinn að seljast sem aldrei fyrr og sérstök söluumboð fyrir Smart hafa verið opnuð í Danmörku.