Smart Roadster snýr aftur 2007

http://www.fib.is/myndir/AC-logo.jpg

Sportbílasmiðjan fornfræga sem um miðja síðustu öld byggði AC sport- og kappakstursbílana AC og AC Cobra hyggur nú á sögulega endurkomu inn í breskan bílaiðnað. AC er komið í samstarf við fjárfestingarhóp sem nefnist Project Kimber um framleiðslu á „nýjum“ litlum sportbíl.

Þessi nýi sportbíll er raunar litli og sparnerytni sportbíllinn Smart Roadster sem hætt var að framleiða á síðasta ári. DaimlerChrysler seldi þá framleiðsluréttinn og framleiðslutækin fyrrnefndu Project Kimber félagi og í gær var svo tilkynnt um væntanlegt samstarf við AC um framleiðslu á nýjum sportbíl sem yrði byggður á Smart Roadster.
http://www.fib.is/myndir/Smart_Roadster_v_Schotter.jpg
Nánast eina starfsemi AC undanfarin allmörg ár hefur verið bílasmiðja á Miðjarðarhafseynni Möltu þar sem byggðar eru í smáum mæli eftirlíkingar af hinum fornfræga AC-Cobra sportbíl undir nafninu AC MkV. Breska bílatímaritið AutoExpress segir að sú framleiðsla muni verða algerlega óháð Smart-verkefninu.


                                                                                            Smart Roadster

Raunar hefur verið vaxandi eftirspurn eftir Cobra eftirlíkingum, sérstaklega í Bandaríkjunum og í undirbúningi er að reisa sérstaka verksmiðju þar til að anna henni betur, en það er önnur saga.

Nýi AC-Smart sportbíllinn verður ekki óbreyttur Smart Roadster því að einn virtasti bílahönnuður Breta, Gordon Murray, sem ættaður er frá S. Afríku, hefur í raun endurhannað bílinn. Gordon Murray er sá sem á sínum tíma hannaði Formúlu 1 bílinn fyrir McLaren þannig að hér er enginn aukvisi í bílahönnun með hönd á plógi. Af öðrum sem að hönnun nýja AC-Smart bílsins hafa komið má nefna John Piper sem þátt átti í hönnun JCB dísiltryllitækis sem nýlega setti hraðamet. Þótt Project Kimber hafi nú tlkynnt um fyrirætlanir sínar um framtíð Smart Roadster sportbílsins og hverjir koma að hönnun hans og undirbúningi, þá hefur lítið verið látið uppi um tæknilegar hliðar bílsins að öðru leyti en að ofan er talið.

Engu að síður telja bílablaðamenn sig vita að eins og raunin var með Smart Roadster þá verður nýi bíllinn fáanlegur bæði sem opinn sportbíll og með hörðum aftursleiktum toppi (coupé). Og eins og Smartinn verður nýi bíllinn með afturhjóladrifi og vélinni afturí, en í stað litlu vélarinnar í Smart kemur ný vél og gírkassi sem vélahönnuðurinn Keith Helfet hefur hannað. Keith þessi hefur m.a. hannað vélar og drifbúnað fyrir Jaguar. Þótt ekkert hafi verið uppgefið um útsöluverð á nýja bílnum er talið að það verði í kring um 13 þúsund pund eða um 1,7 millj. Ísl. kr. sem er svipað og var á Smart Roadster meðan hann var og hét.