Snjöll viðbót við örbíl

Svissnesk-austurríska Rinspeed bílahönnunarfyrirtækið og forstjóri þess; Frank M. Rinderknecht, hafa lengi verið mjög áberandi fyrir ótrúlegan frumleika og sköpunargleði. Á bílasýningunni í Genf 8.-18 mars nk. ætlar Rinspeed að sýna nýjasta hugverkið sem kallast Dock+Go.

Þetta farartæki er í grunninn tveggja sæta Smart Fortwo rafbíll en við hann hefur Rinspeed hannað og smíðað einskonar festivagn sem bætir verulega flutningsgetu Smart bílsins og þar með notagildi fyrir t.d. iðnaðarmenn. Í frétt frá Rinspeed segir m.a. um þetta nýjasta sköpunarverk:

http://www.fib.is/myndir/Rinspeed-2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Rinspeed-3.jpg

„Allir fólksbílar eru á tveimur öxlum. En hversvegna ekki að bæta þeim þriðja við, en aðeins þegar þess gerist þörf?“  Síðar segir að hið ómótstæðilega við þessa grunnhugmynd er það að tengja við bílinn einskonar bakpoka á hjólum. Með þessu móti má stórauka notagildi bílsins þegar þörfin kallar. Þess í milli er maður laus við að flyta með sér ónotað og óþarft farangursrými og meðfylgjandi aukaþyngd hvert á land sem er.

Þá segir einnig að með viðbótinni minnki drægið og vinnslan ekkert því að „bakpokinn“ sé með sínar eigin rafhlöður og sinn eigin rafmótor. Sérhannaður tengi- og festibúnaður er á bæði bílnum og viðbótinni þannig að samantengt virkar allt saman eins og ein heild, þar með talið inngjöf og hemlar. Í raun sé hægt að hanna svona viðbót við hvaða rafbíl sem vera skal. Frank M. Rinderknecht hafi valið Smart Fortwo fyrst og fremst vegna þess að bíllinn er mjög útbreiddur og alþekktur. Auðvelt sé að aðlaga viðbótina að hverskonar flutningsþörfum. Flutningsboxið geti t.d. verið hitaskápur fyrir pizzasendlana sem þá geta skilað pizzunum heitum, fyrir iðnaðarmennina sem hafa þá flutningsrými fyrir öll verkfærin sín, fyrir golf-fólkið, fyrir veisluþjónustuna og hvern sem er.

Þá sé viðbótin eða the Dock+Go flutningsboxið ekkert frekar bundið við hreina rafbíla. Það megi allt eins útbúa það fyrir bíla með hefðbundnum brunahreyfli. Þá myndi rafmótorinn í því virka sem aukaknýr fyrir bílinn og jafnvel einn og sér í rólegri borgarumferðinni. Viðbótin breytir þannig hefðbundnum bíl með brunahreyfli í tengiltvinnbíl.