Snjómokstur gengið hægt og illa – hlutirnir ekki alveg hugsaðir í botn

Ökumenn hafa ekki farið varhlutan að slæmri færð sem hefur verið götum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu Þungur snjór og mikil klakamyndun hefur myndast sem gerir ökumönnum erfitt að komast leiðar sinnar og á það alveg sérstaklega við í húsagötum. Snjóruðningstæki á vegum borgarinnar hafa vart undan að brjóta klakann og ryðja götur.

Margir ökumenn hafa látið í ljós óánægju hversu seint og illa hefur gengið að koma götunum í viðeigandi ástand. Þá hafa bílar orðið fyrir tjóni vegna ástandsins og þá alveg sérstaklega í húsagötum. 

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sagði í samtali við Fréttablaðið um helgina að það sé ekki eins og það sé að koma okkur í opna skjöldu að það geti komið svona tíð eins og er nú.

,,Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með hversu illa hefur gengið að hreinsa göturnar. Við höfum séð ár þar sem við komum mjög vel undan vetri og það ætti þá að skapa borð fyrir báru til að auka þjónustuna þegar aukinnar þjónustu er þörf. Ég verð að viðurkenna að það hefur valdið vonbrigðum hversu illa hefur gengið að hluta að hreinsa borgina til dæmis og höfuðborgarsvæðið. Við höfum heyrt þetta sama um kaflana í nágrenni höfuðborgarinnar eins og Hellisheiði til dæmis,“ sagði Runólfur í samtali við Fréttablaðið.

Runólfur bendir á að þetta hafi víðtæk áhrif á samfélagið. Það sem við erum að upplifa núna er að fólk er að verða fyrir miklum persónulegum skaða út af ástandinu.

,,Borgin verður líka fyrir skaða, þetta dregur úr vinnuframlagi og eykur kröfu á veghaldarann, sem er borgin að einhverju leyti, vegna tjóns sem fólk verður fyrir. Fyrir utan það sem er alvarlegast sem eru slys á fólki, sem eykur þá álag á heilbrigðiskerfið,“ segir Runólfur. Auðvitað eykur þetta þrýsting og vinnuálag á þá sem sinna þessu starfi og ég veit að þar er fólk að gera eins vel og það getur. En það er spurning hvort menn hafi einhvers staðar á leiðinni ekki alveg hugsað hlutina í botn. Við þurfum tæki, búnað og mannskap til að sinna þessu,“ sagði Runólfur Ólafsson við Fréttablaðið.