Sókn eftir Fiat 500

http://www.fib.is/myndir/Fiat_500.jpg

Hinn nýi endurfæddi Fiat 500 höfðar greinilega til margra því gríðarlegur áhugi hefur verið fyrir bílnum um alla Evrópu frá því hann var frumkynntur með pomp og prakt í sumar.

Hér á landi er einnig greinilegur áhugi hjá mörgum þótt hann sé varla eins heitur og á meginlandi álfunnar. Á bílasýningu í Herning í Danmörku nýlega sem mun vera hins stærsta á Norðurlöndum, drógu nýir Fiat 500 sýningarbílar að sér mikinn fjölda fólks og staðfestar pantanir á bílnum streymdu inn þótt afhending hefjist ekki fyrr en 1. mars á næsta ári. í  samtali við blaðamann FDM sagði forstjóri Fiat í Danmörku að fleiri en 500 manns hefðu pantað sér nýjan Fiat 500 á sýningunni. Þess má geta að þar sem náin tengsl eru milli Fiat í Danmörku og íslenska Fiat umboðsins verður Fiat 500 örugglega ekki fyrr á ferðinni á Íslandi en í Danmörku.

Nánast enginn þeirra sem pantað hafa sér nýjan Fiat 500 í Danmörku hefur nokkru sinni haft tækifæri til að reynsluaka bílnum og dönsku kaupendurnir vita ekki einusinni hvað hann kemur til með að kosta. Eina verðið sem Fiat í Danmörku hefur getað gefið upp hingað til er að hann kosti aðeins undir 1,6 millj. Ísl. kr.

Sem fyrr segir hefst sala og afhending í Danmörku þann 1. Mars á næsta ári og eins og oft gerist með nýja bíla sem þykja eftirsóknarverðir, þá verður til hliðarinnflutningur, það sem sumir vilja kalla gráan markað sem í flestum tilfellum er rangnefni. Þannig hefur Danskt bílasölu- og rekstrarleigufyrirtæki hefur nýlega keypt 25 eintök af bílnum frá Ítalíu þar sem hann er þegar kominn í sölu. Bílarnir eru flestir eknir í kring um 500 km og ásett verð á þeim er í kring um 2,4 m. ísl. kr. fyrir bíl með 1,2 l vél og miðlungs búnaði.