Söluhæstu bílarnir 2012

Hvaða bílagerðir gengu best á gamla árinu? Hver er söluhæsti bíll ársins 2012? Corolla, Golf eða kannski Ford F-150 sem runnið hefur út sem heitar lummur í Bandaríkjunum lengur en elstu menn muna? Nei, enginn þessara. Það er Ford Focus. Milljón eintök af honum seldust í heiminum árið 2012 samkvæmt tölulegri samantekt LMC Automotive.

Hugsanlegt er að Corollan hefði orðið söluhæsti bíll heims, hefði Toyota sleppt því þarna um árið að taka Corolluna út sem aðalbíl sinn í Evrópu en setja Auris inn í hennar stað. Kannski er það ástæða þess að Corolla er nú í öðru heimssætinu með um 966 þúsund bíla.

Tekið skal fram að þetta eru bráðabirgðatölur. Hugsanlegt er að þær eigi eftir að breytast eitthvað þegar menn hafa rýnt betur í sölutölur sem safnað hefur verið saman hvaðanæva úr heiminum.

En annars lítur listinn svona út:

1) Ford Focus: 1.000.000

2) Toyota Corolla: 966.000

3) VW Jetta: 822.000

4) Hyundai Elantra: 777.000

5) Ford Fiesta: 728.000

6) VW Golf: 726.000

7) Toyota Camry: 705.000

8) VW Polo: 704.000

9) Chevrolet Cruze: 694.000

10) Honda Civic: 638.000