Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu

Árleg sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu fer fram á morgun, miðvikudaginn 26. maí. Keppnin verður með hefðbundnu sniði og á þriðja tug nýrra bíla er skráður til keppni.

Eldsneytiseyðsla og útblástur gróðurhúsalofts frá bílum hefur farið jafnt og þétt minnkandi undanfarin ár og aldrei áður í rúmlega aldarlangri sögu bílsins hefur  neytendum staðið til boða jafn fjölbreytt úrval neyslugrannra bíla og aldrei áður hafa bílar almennt verið jafn sparneytnir og nú. En sparneytni bíla er að stórum hluta enn sem fyrr komin undir skynsamlegu og kunnáttusamlegu ökulagi. Það verður því spennandi að fylgjast með hvernig gengur og hver að lokum stendur uppi sem sigurvegari og á hvaða bíl hann ekur.

Keppnin hefst á dæluplani Atlantsolíu við Húsgagnahöllina að Bíldshöfða í Reykjavík og mun Karl V. Matthíasson, formaður Umferðarráðs ræsa fyrsta bílinn kl. 13.30. Bílarnir verða síðan ræstir með tveggja mínútna millibili.

Ekinn verður hinn hefðbundni keppnishringur sem er um Mosfellsdal og Mosfellsheiði, suður Grafning að Nesjavöllum, Írafossi og suður Grímsnes að Selfossi þar sem tímataka fer fram á dæluplani Atlantsolíu á Selfossi. Eftir tímatöku er ekið yfir Ölfusárbrú í átt að Eyrarbakka og um Þrengslin til Reykjavíkur og endað á upphafsstað; hjá Atlantsolíu við Húsgagnahöllina. Reikna má með fyrstu bílum í mark upp úr kl hálf fjögur og síðasta bíl um klukkustund síðar.