Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu

http://www.fib.is/myndir/Sparaksturskeppni.jpg

Fyrri hluti sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu fer fram á morgun, þriðjudag og hefst keppni kl. 14.00 þegar fyrsti bíllinn verður ræstur af stað.

Í þessum hluta keppninnar eru það eingöngu bílaumboð sem senda bíla til keppni. Í síðari hluta keppninnar verður hins vegar öllum frjálst að mæta með eigin bíla, nýja sem gamla til keppni. Keppni í síðari hluta sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu fer fram síðar í sumar og verður það skilmerkilega auglýst þegar nær dregur.

Keppnishaldarar ákváðu eftir síðustu sparaksturskeppni að skipta keppninni upp með þessum hætti bæði til að einfalda sjálfa framkvæmdina og eins til að gera neytendum auðveldara að greina í milli nýrra og eldri bíla hvað eyðslu varðar.  

Keppnisleiðin er sú sama og var ekin í fyrra, eða úr Reykjavík um Mosfellsheiði og Grafning að Nesjavöllum og Ljósafossi. Þaðan liggur leiðin á Selfoss niður að Eyrarbakka, yfir Óseyrarbrú, um Þrengsli og aftur til Reykjavíkur.

Flestöll bílaumboðin hafa skráð bíla til þátttöku á morgun og má búast við spennandi keppni.  Akstursleiðin er mjög fjölbreytt og m.a. er rúmlega 13 km kafli hennar malarvegur. Heildarvegalengdin er ríflega 142 km og reynir verulega á ökumenn og kunnáttu þeirra í sparakstri. Því má búast við spennandi keppni á morgun.