Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu 2009

http://www.fib.is/myndir/Thorbj.Helga.jpg
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi ræsti fyrstu bílana í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu.
 
Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu 2009 var haldin í fyrradag, daginn fyrir uppstigningardag í sól og blíðviðri. Ekinn var hefðbundinn hringur frá bensínstöð Atlantsolíu við Bíldshöfða austur Þingvallaveg, niður Grafning um Nesjavelli og Írafoss, Selfoss, Eyrarbakka, Þrengsli og endað á upphafsstað.

Markmið keppninnar er að eyða sem minnstu eldsneyti á leiðinni og reynir verulega á keppendur, kunnáttu þeirra í akstri og þekkingu á bílum. Úrslit urðu sem hér segir:

Bensínbílar:
Í flokki bensínbifreiða með vélarstærð 0-1200 rúmsm sigraði Aðalsteinn Svan Hjelm á Volkswagen Fox. Bíllinn eyddi 4,02 lítrum á hundraðið.
http://www.fib.is/myndir/Sigurros.jpg
Í flokki bensínbifreiða með vélarstærð 1201 til 1600 rúmsm sigraði Sigurrós Pétursdóttir á Toyota Yaris Sol. Hennar bíll eyddi 4,44 lítrum af bensíni. Það er Sigurrós sem er á myndinni hér til hægri.

Í flokki  bíla með vélarstærð 1601 til 2000 rúmsm sigraði Rúnar Már Hjartarson á Toyota Avensis Sedan Sol. Bíll hans eyddi 5,07 á hundraðið.

Í flokki bíla með vélarstærð 2500 til 3500 rúmsm sigraði Ágúst Hallvarðsson á 200 hestafla Volvo C 30. Bíll hans eyddi 6,09 lítrum á hundraðið.

Dísilbílar:
Í flokki dísilbifreiða með vélarstærð 1201 til 1600 rúmsm sigraði Margeir Kúld Eiríksson á Volkswagen Fox 1.4 Tdi. Bíll hans eyddi 3,3 lítrum á hundraðið.

Í flokki bíla með vélarstærð 1601 til 2500 rúmsm sigraði Friðrik Þór Halldórsson á Skoda Octavia. Hans bíll eyddi að meðaltali 3,02 lítrum á hundraðið í keppninni.

Loks í flokki bíla með vélarstærð 2500 til 3500 rúmsm sigraði Jóhannes Egilsson á Toyota Landcruiser með 6,25 lítra á hundraðið.

Hægt er að skoða úrslitin nákvæmlega á Excel-skjali hér á heimasíðu Atlantsolíu.