Sparaksturskeppnin 2011

Árleg sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu fer fram í dag og verður fyrsti bíllinn ræstur af stað kl 13.30 frá bensínstöð Atlantsolíu við Húsgagnahöllina, Bíldshöfða.

25 nýir bílar eru skráðir til keppni í dag og er ekki vafamál að keppni verður hörð og spennandi. Bæði eru nýjustu bílarnir sparneytnari en áður hefur þekkst í sögu bílsins en einnig taka flestir bestu ökumenn landsins í sparakstri þátt í keppninni.
 
Rétt rúmar tvær klukkustundir tekur að aka keppnisleiðina. Hún liggur frá bensínstöð Atlantsolíu við Bíldshöfða um Vesturlandsveg, Mosfellsdal, Mosfellsheiði, Grafning, Grímsnes - um Selfoss, Eyrarbakka og Þrengsli til Reykjavíkur. Keppnin endar síðan á upphafsstað. Búast má við að úrslit liggi fyrir upp úr kl. 17.00. Keppnisbílar eru byrjaðir að mæta á upphafsstað keppninnar þegar þetta er ritað. Þar verða þeir skoðaðir og fyllt á eldsneytistanka þeirra og áfyllingarstútar þeirra síðan innsiglaðir.