Sporlaus innbrot í bíla

Þeir sem hafa lifibrauð sitt af þjófnuðum, innbrotum og öðrum glæpum gerast stöðugt tæknivæddari og halda þannig í við tækniþróunina. Íslendingur sem býr í Bandaríkjunum varð þessa áþreifanlega var nýlega þegar hann lagði bíl sínum á bílastæði við verslanamiðstöð og læsti með fjarstýringunni. Hann hafði ekki fyrr læst en hann heyrði að læsingar bílsins opnuðust. Hann læsti bílnum aftur og fljótlega heyrði hann að læsingarnar opnuðust enn. Eftir að hafa nokkrum sinnum reynt að læsa bílnum og hann opnast jafnharðan aftur, fór honum ekki að verða um sel.

Maðurinn hafði haft óljósar fregnir af því að til væru þjófagengi sem sérhæfð væru í því að opna læsta bíla og stela úr þeim öllu sem hönd á festi. Þessi þjófagengi hefðu komið sér upp tæknibúnaði eða skönnum sem nema radíómerki frá fjarstýringum fyrir bíla. Þegar fólk stígur út úr bílnum og læsir með fjarstýringunni, nemur tæknibúnaður þjófanna merkið og tekur það upp. Þjófurinn með skannann getur síðan nýtt merkið til að opna bílinn og hirt það sem í honum er og forðað sér síðan.

Okkar maður fór því að skima í kring um sig  og sér loks bíl á sérstakri að- og frákeyrslubraut framan við verslunarmiðstöðina sem sérstaklega er fyrir sjúkra-, slökkvi- og lögreglubíla. Í þessum bíl sátu tveir menn sem fylgdust með okkar manni, en þegar þeir sjá að hann er farinn að fylgjast með þeim, var bílnum gefið í botn og í burtu. Bíleigandinn hætti snarlega við að fara inn í verslunarmiðstöðina en ók strax á næstu lögreglustöð og sagði frá atvikinu.

Lögreglumennirnir staðfestu að þetta væri orðin þekkt innbrotsaðferð í bíla. Þjófarnir væru með þessa skanna og fylgdust með fólki sem kemur og leggur bílnum og fer síðan. Þegar fólk færi frá bílum sínum væri það yfirleitt að hugsa um flest annað en að einhver væri að sitja um að brjótast inn í bíla þess. En þegar síðan helgarinnkaupin, fartölvan eða önnur verðmæti eru horfin úr bílnum án þess að nokkur ummerki sjáist um innbrot, sé það oft tregt til þess að kæra þar sem það heldur að það sjálft hljóti að hafa ruglast eitthvað í ríminu. Og svo eru þjófarnir á bak og burt auðvitað.

Sigurður Harðarson rafeindafræðingur segir í samtali við FÍB fréttavefinn að þótt hann hefði ekki heyrt mikið af svona þjófabúnaði þá væri hann vafalítið í notkun, enda ekki sérlega flókið að búa hann til. Í raun væri þetta viðtæki sem nemur radíómerki frá fjarstýringu bílsins. Í þessu viðtæki þurfi síðan að vera búnaður til að taka merkið upp og geyma og síðan sendibúnaður sem svo sendir merkið til bílsins sem opnast við það.

Eftir því sem við komumst næst hafa mál af þessu tagi ekki komið inn á borð lögreglu hér á landi. Nýlega átti tíðindamaður FÍB fréttavefjarins þó samtal við félagsmann sem sagði frá því að hann hefði farið og keypt nýja ryksugu. Hann hefði síðan átt erindi niður í miðbæ og lagt bílnum bílastæði við höfnina. Þegar hann svo kom heim og ætlaði að taka ryksuguna úr skottinu á bílnum var bara engin ryksuga þar lengur. Það hefði verið eins og hún hefði horfið úr bílnum meðan hann stóð á stæðinu í miðbænum. Engin merki voru hins vegar um innbrot í bílinn. Spurningin er því hvort svona þjófabúnaður sé kominn til Íslands? Á ryksuguhvarfinu eru satt að segja fáar aðrar líklegar skýringar.