Sportútgáfa af Kia Ceed

http://www.fib.is/myndir/KiaProceed.jpg
Kia Proceed.

Kia hefur hefur sent út myndir af glænýrri sportútgáfu fjölskyldubílsins Kia Ceed. Kia Ceed tilheyrir svonefndum Golf-flokki sem dregur nafn sitt af VW Golf. Bílarnir eru hannaðir af Evrópudeild hins kóreska KIA og byggðir í nýrri verksmiðju Kia í Slóvakíu. Þessi sportútgáfa var sýnd sem hugmyndarbíll á bílasýningunni í París á síðasta ári. Bíllinn er nú tilbúinn í fjöldaframleiðslu lítilð breyttur frá hugmyndarbílnum.

Gregory Guillaume, yfirhönnuður Kia Motors Europe segir að meiningin hafi verið að hafa þetta nýja afbrigði Ceed, sem þeir nefna Pro-cee’d, eins sportlegan og mögulegt var án þess þó að  skyldleikasvipurinn væri fyrir borð borinn.

Kia Pro-cee’d verður einungis þriggja dyra hlaðbakur eins og sportútgáfur lítilla og meðalstórra fjölskyldubíla yfirleitt eru. Framleiðsluútgáfan verður frumsýnd á Frankfurt-bílasýningunni í næsta mánuði og sala hefst snemma á næsta ári.