Stafrænt ökuskírteini gildir aðeins á Íslandi

Borið hefur á því að Íslendingar á ferðalagi erlendis hafi lent í vandræðum á bílaleigum þegar þeir geta einungis lagt fram ökuskírteini á stafrænu formi. Þangað til annað verður ákveðið er bara hægt að framvísa stafrænu ökuskírteini hér á landi. Það er því afar brýnt að Íslendingar sem hyggja á ferðalög erlendis hafi þetta í huga og hafi hefðbundið ökuskíretini alltaf meðferðis.

Stafræn ökuskírteini eru jafngild hefðbundnum ökuskírteinum á Íslandi en gilda ekki annars staðar en hér á landi. Ökuskírteini sem gefin eru út af EES ríkjum eru almennt viðurkennd gagnkvæmt milli EES ríkja en stafrænu ökuskírteinin uppfylla ekki kröfur Evróputilskipunar um ökuskírteini og munu því aðeins gilda innanlands.

Íslendingar hafa lítið verið á faraldsfæti síðan farið var að bjóða upp á stafræn ökuskírteini vegna heimsfaraldursins. Það er mikilvægt að hafa í huga að það gildir ekki erlendis og því þarf að muna eftir plastinu þegar haldið er í ferðalag utan landssteinanna.

Þess má geta að frá því farið var að bjóða upp á stafræn ökuskírteini á Íslandi vorið 2020 hafa 133 þúsund einstaklingar sótt sér slíkt í snjallsíma sína. Stafræna ökuskírteinið er því komið í mikla dreifingu hér á landi eða rúmlega helmingur ökumanna en um 260 þúsund einstaklingar eru með ökuréttindi hér á Ísland.