Starfsfólk bakki í bílastæðin

Frá 1. júlí sl. hefur sú regla gilt á bílastæðinu við höfuðstöðvar vindmylluframleiðandans Vestas í Aarhus á Jótlandi, að starfsfólk  sem kemur akandi til vinnu skuli bakka bílum sínum í stæði. Á áberandi skiltum á bílastæðasvæðinu stendur; „Kun baglæns parkering.“ Þessi regla hefur vakið talsverða athygli og misjöfn viðbrögð í Danmörku: Sumum finnst hún afspyrnu vitlaus og dagblaðið Aarhus Stiftstidende segir frá henni í greinaflokki sem nefnist „Skøre regler“ eða bjánalegar reglur.

En er þetta svo bjánalegt? Samskonar regla hefur reyndar gilt á ákveðnum stað hér á Íslandi og gildir vafalaust enn: Þegar álverið á Reyðarfirði var í byggingu var mikil áhersla lögð á öryggi og slysavarnir. Öryggisreglur voru settar og þeim fylgt vel eftir. Ein þessara reglna var einmitt sú að bílum skyldi bakkað í merkt bílastæði á stæðasvæðinu við verksmiðjuna. Það var til þess að ef eitthvert slys henti, kæmist fólk fljótar og auðveldar út af svæðinu. Blaðafulltrúi Vestas í Aarhus segir við Aarhus stiftstidende að reglan frá í sumar sé m.a. sett til þess að minna starfsfólkið á öryggismálin í upphafi vinnudags auk þess sem hinir akandi hafi mun betra útsýni og sjái betur aðra bíla sem og hjólandi og gangandi fólk. Þar með minnki árekstra- og slysahætta stórlega þegar haldið er heim á leið og bílasvæðið tæmist í lok vinnudags.

Spurður um viðurlög við því að hunsa þessa reglu segir blaðafulltrúinn að þau séu engin heldur er höfðað til skynsemi fólks. Hann vill ekki greina frá því hvort það hafi einhverjar afleiðingar fyrir starfsfólk að hunsa regluna en segir að langflestir, bæði starfsfólk og gestir fari hins vegar eftir henni.  

Þessi bakkregla er reyndar alls ekki ný af nálinni í Danmörku. Hún hefur viðgengist í um átta ár hjá Siemens í Danmörku þar sem um 3.500 manns starfa á vöktum meira og minna allan sólarhringinn. Það er því næstum alltaf stöðug umferð vaktavinnufólks á bílastæðinu sem kemur og fer.  

Hjá Siemens var bakkreglan innleidd eftir alvarlegt slys á aðal bílastæðasvæðinu við verksmiðjuna. Nokkurn tíma tók þar að fá fólk til að hlíta bakkreglunni og var þá gripið til þess ráðs að setja stóran steypuklump aftan við þá bíla sem ekki hafði verið bakkað í stæði. Til að fá hann fjarlægðan var viðkomandi bíleigendum gert að mæta hjá forstjóranum í spjall um öryggismál. Ekki leið þá á löngu þar til engum datt lengur í hug að þrjóskast gegn bakkreglunni. Reglan hefur jafnframt leitt til þess að engin slys hafa orðið á starfsmannabílastæðinu þau átta ár sem liðin eru önnur en smávægilegt nudd, enda eru kannski ekki allir jafn flinkir við að bakka og nota speglana við það.