Starfshópur skipaður til að kortleggja stöðu smáfarartækja

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur ákveðið að skipa starfshóp til að kortleggja stöðu smáfarartækja í umferðinni og vinna tillögur að úrbótum, m.a. til að tryggja umferðaröryggi og bæta innviði fyrir nýjan ferðamáta. Starfshópurinn skal skila af sér tillögum fyrir 1. júní nk. Af því fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Smáfarartæki hafa á skömmum tíma orðið áberandi og mikilvægur ferðamáti og skapað tækifæri til jákvæðra breytinga á ferðavenjum fólks. Í grænbók um samgöngur sem birt var í september sl. er aukin hlutdeild smáfarartækja skilgreind sem eitt af lykilviðfangsefnum málaflokksins.

Markmið með vinnu starfshópsins eru að styðja við fjölbreyttari og umhverfisvænni ferðamáta og stuðla jafnframt að auknu umferðaröryggi í tengslum við notkun smáfarartækja í umferðinni með þarfir notenda þeirra að leiðarljósi. Því er stefnt að því að sumarið 2022 liggi fyrir tillögur að breytingum á regluverki smáfarartækja, ásamt áherslum og aðgerðum um örugga notkun, búnað og umhverfi smáfarartækja hér a landi sem samræmist þessum markmiðum.

Samráð við almenning og hagaðila

Starfshópurinn munu eiga samráð við opinbera aðila og einkaaðila sem málið varðar sérstaklega, s.s. fulltrúa notenda smáfarartækja og þeirra fyrirtækja sem leigja út slík tæki. Litið skal til reynslu nágrannaríkja af smáfarartækjum og kannað hvort árangri hafi verið náð þar með breytingum á regluverki. Almenningi verður jafnframt gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Í starfshópnum verða fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Verkefnisstjóri ráðuneytisins er Björn Ágúst Björnsson.