Stefnt að 1.609 km hraða á bíl

Með alþjóðlegri samvinnu ætla menn nú að setja land-hraðamet á ökutæki. Bíllinn sem á að slá öll fyrri hraðamet af þessu tagi og komast á þúsund mílna hraða eða 1.609 km á klst, nefnist Bloodhound. Sjálfur metaksturinn á að fara fram árið 2016.

Bloodhound bíllinn er byggður í Bretlandi en knýbúnaðurinn kemur að miklum hluta frá Noregi. Verkefnið í heild snýst ekki bara um nýtt hraðamet, heldur er það að hluta til geimþróunarverkefni sem evrópska geimferðastofnunin ESA styrkir. ESA styrkir nefnilega hönnun og smíði nýrra eldflaugamótora sem eiga að sanna sig í þessum bíl. Þeir eiga nefnilega þegar fram líða stundir að knýja eldflaugar sem flytja eiga gervitungl á sporbraut umhverfis jörðina þegar fram líða stundir. Ætlunin er að skjóta þessum eldflaugum upp frá norsku eynni Andöya.

Norska fyrirtækið NAMMO hefur unnið að þessum nýju eldflaugamótorum síðan árið 2010. Fyrir um ári, gengu Bloodhound-hraðametsmennirnir bresku til liðs við NAMMO og nú hefur sú samvinna leitt til þess að þrír þessara mótora verða í Bloodhound bílnum til að knýja hann áfram upp í ofurhraðann 1.609 km á klst sem er vel rúmlega einn og hálfur hljóðhraði. Undanfarið hafa mótorarnir verið reynslukeyrðir að undanförnu með góðum árangri bæði í rannsóknastofu en einnig í eldflaugum. Það sem sérstakt er við þessa eldflaugamótora sem verða í Bloodhound bílnum er það að hægt er að slökkva á þeim og gangsetja síðan aftur. Það er gert með hjálp bensínbílvélar sem knýr dælur sem dæla eldsneyti inn á þá.

En það eru ekki bara eldflaugamótorarnir þrír sem verða í bílnum heldur verður líka Rolls-Royce EJ200 þotuhreyfill úr Typhoon orrustuþotu.

Eldsneytið er blanda tveggja efna; annarsvegar vetnisperoxíðs sem þekkt er á hárgreiðslustofum sem aflitunarefni fyrir höfuðhár. Hitt meginefnið er hydroxyl-terminated polybutadiene sem eiginlega er fljótandi gervigúmmí. Það góða við þetta eldsneyti er að það er ekki sérstaklega rokgjarnt, tiltölulega ódýrt og ekki sérlega mengandi.

Bílstjórinn sem mun aka bílnum við heimsmetstilraunina heitir Andy Green. Hann er handhafi núverandi heimsmets frá 1997 sem er 1.228 km á klst. Þegar hann ekur af stað verður hröðun bílsins þvílík að „lárétt“ líkamsþyngd hans verður 2,5-föld (2,5 g). Tilraunin verður gerð á sérstaklega gerðri braut í S. Afríku sem er 19 kílómetra löng.  

Tæknifyrirtækið NAMMO varð til árið 1998 þegar sænsk og finnsk vopnafyrirtæki voru sameinuð norska vopnaframleiðslufyrirtækinu  Raufoss Ammunisjon. Hlutur Raufoss í nýja fyrirtækinu var 45% en síðan hefur norska ríkið eignast þann hlut. Sl. ár var velta NAMMO 3,7 milljarðar norskra króna.